Andlausi kokkurinn

Andlausi kokkurinn

Það sem andlausi kokkurinn óttast mest af öllu er spurningin: „Hvað er í matinn?“ Andlausi kokkurinn kvíður matseldinni af því að andlausi kokkurinn veit aldrei hvað á að vera í matinn. Hann reynir að láta sér detta eitthvað í hug en það bólar lítið á hugmyndum. Andlausi kokkurinn er vægðarlaus í sjálfsgagnrýni sinni og skýtur misskunarlaust niður þær hugmyndir sem skjóta upp kollinum því þær eru annað hvort óinnblásnar eða af ótta við að valda öðrum fjölskyldumeðlimum vonbrigðum yfir því að það sé alltaf sami matur á borðum. „Nei ekki bjúgu aftur!“ Ef andlausi kokkurinn er í heimili með einhverjum sem er hugmyndaríkur í eldhúsinu er upplifun andlausa kokksins af matargerð hins aðilans oft: „af hverju datt mér þetta ekki í hug. Ég hefði auðveldlega getað eldað þetta ef ég hefði bara fengið hugmyndina.“

Andlausi kokkurinn getur þó huggað sig við það að andlausi kokkurinn er ekki einn. Í þjóðfélaginu er fjöldi andlausra kokka og geta þeir oft haft stuðning hvor af öðru. Á vinnustöðum geta andlausir kokkar tekið saman höndum og skipts á uppskriftum og andlausi kokkurinn getur líka nýtt sér tilboðs-auglýsingar matvöruverslana til að örva ímyndunaraflið. Það er enginn dæmdur til að vera andlaus kokkur til æviloka.