Menu
Tómatsúpa með ristuðum tómötum og basilíku

Tómatsúpa með ristuðum tómötum og basilíku

Rjómalöguð tómatsúpa með ferskum ristuðum tómötum, lauk, hvítlauk og basilíku er súpa sem þú verður að prófa. Súpan er bragðmikil og góð og óhætt að segja að rjóminn fullkomni áferðina. Gott er að bera súpuna fram með Goðdala Feyki eða parmesan osti, steinbökuðu tómat-baquette brauði og smjöri. 

Uppskriftin dugar fyrir 4-6.

Innihald

4 skammtar
ferskir tómatar
ólífuolía
smjör
laukur
hvítlauksrif
hakkaðir tómtar (um 800 g)
ferskt tímían (garðablóðberg)
gróft sjávarsalt
svartur pipar
handfylli af ferskri basilíku
vatn
grænmetiskraftur (teningar)
sykur
rjómi frá Gott í matinn
Goðdala Feykir eða parmesan

Skref1

 • Skerið fersku tómatana í tvennt og raðið þeim á ofnplötu með bökunarpappír.
 • Setjið ólífuolíu yfir alla tómatana og kryddið með salti og pipar.
 • Bakið í klukkustund við 180°C.

Skref2

 • Á meðan tómatarnir eru að bakast er gott að byrja á rest.
 • Setjið smjör í pott, skerið niður lauk og steikið þar til laukurinn er orðinn ljós gylltur að lit.
 • Skerið niður eða pressið hvítlaukinn, bætið saman við og steikið léttilega.
 • Setjið tómatana úr dós saman við ásamt grófsaxaðri basilíku, fersku garðablóðbergi, salti og pipar og leyfið suðunni að koma upp.
 • Setjið vatn saman við ásamt grænmetisteningum og hrærið vel saman.
 • Látið sjóða í rúmar 10-15 mínútur.

Skref3

 • Þegar tómatarnir hafa bakast í ofninum er þeim bætt saman við.
 • Maukið súpuna með töfrasprota þar til súpan er orðin mjúk og slétt og látið hana sjóða í stutta stund.
 • Blandið rjóma saman við og hrærið vel. Gott er að smakka súpuna til og ef til vill salta eða bæta svörtum pipar við ef þarf.
 • Setjið súpuna í skálar og berið fram með rifnum Goðdala Feyki eða parmesanosti ofan á og auka basilíku fyrir þau sem vilja.
 • Tómatbrauð eða annað gott brauð ásamt íslensku smjöri er fullkomið meðlæti með súpunni.
Skref 3

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir