Menu
Steikarloka

Steikarloka

Góð steikarloka er hin fullkomna máltíð og ekki verra þegar maður getur sjálfur stýrt magni af öllum hráefnum fyrir sína loku, namm! Það er einfalt að útbúa þessa dýrindis samloku svo nú þurfið þið ekki oftar á veitingastað fyrir slíka!

Innihald

4 skammtar
elduð nautalund
laukur
sveppir
klettasalat
baguette brauð (þessi mjóu frosnu)
Óðals Tindur
bernaise sósa (keypt tilbúin)
smjör til steikingar
salt, pipar og hvítlauksduft

Skref1

  • Skerið niður og steikið lauk og sveppi upp úr smjöri, kryddið eftir smekk.
  • Grillið/eldið nautalundina eins og þið kjósið, kryddið og leyfið henni að hvíla á meðan restin er undirbúin.
  • Hitið ofninn í 220°C.

Skref2

  • Skerið baguette brauðin í sundur og steikið innri hliðarnar upp úr vel af smjöri, leggið brauðið síðan á bökunarpappír á bökunarskúffu og hitið í 5 mínútur.
  • Takið úr ofninum og setjið lauk, sveppi, nautakjöt og 3 sneiðar af osti á neðri helminginn á hverri samloku.
  • Hitið að nýju í 5 mínútur til að leyfa ostinum að bráðna og takið þá úr ofninum.

Skref3

  • Toppið með klettasalati og bernaise sósu og lokið samlokunni með efra brauðinu.
  • Njótið steikarlokunnar með frönskum eða einni og sér.
Skref 3

Höfundur: Berglind Hreiðarsdóttir