Menu
Rjómalagað hakk og pasta

Rjómalagað hakk og pasta

Ég held að hakk og spaghettí sé með klassískustu heimilisréttum Íslendinga, það er allavega 'go to' rétturinn hjá manninum mínum þegar hann eldar. Skiljanlega, börnin borða vel af þessu, réttinn er einfalt að elda og svo bragðast hann oftast vel. 

Við ætlum ekki að breyta klassíkinni mikið en ég er búin að komast að því að bæta einhverju rjómakenndu í rétti er alltaf viðbót af hinu góða. Ef þið hafið ekki smakkað rjómaostinn með karamellíseruðum lauk þá er tími til kominn, en hann fær mína toppeinkunn og á svo oft vel við. Sætur, mildur og virkilega bragðgóður.

Innihald

4 skammtar
olía
laukur
hakk
hvítlauksrif
sriracha sósa (má sleppa)
sojasósa
ítalskt krydd
vatn
nautakraftsteningur
niðursoðnir tómatar (1 dós)
tómatpúrra
rjómaostur með karamellíseruðum lauk frá MS
salt og pipar
penne pasta

Skref1

  • Setjið olíu á pönnu og skerið laukinn smátt niður og bætið út á pönnuna og steikið í 2-3 mín.
  • Takið utan af hvítlauknum og saxið niður eða notið hvítlaukspressu. Steikið með lauknum í augnablik.
  • Bætið þá hakkinu út á pönnuna og steikið þangað til að hakkið er orðið brúnað.

Skref2

  • Bætið þá restinni af hráefnunum saman við og stillið á miðlungshita, kryddið með salt og pipar eftir smekk.
  • Leyfið að eldast meðan pastað er soðið.
  • Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp.
  • Bætið pastanu út í og sjóðið þangað til að það er fulleldað.

Skref3

  • Hellið vatninu af pastanu og blandið saman við kjötið og sósuna.
  • Berið fram með t.d. rifnum Goðdala Feyki osti eða parmesan, hvítlauksbrauði og fersku salati.

Höfundur: Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir