Menu
Pizzarúlla

Pizzarúlla

Skemmtileg útfærsla á pizzu sem kennd er við ítölsku eldfjallaeyjuna Stromboli norður af Sikiley. Ekki ekta ítölsk uppfinning heldur ítölsk- amerísk skotin af Ítölum sem fluttu sig um set yfir til Ameríku fyrir margt löngu. Á milli þess að vera pizza og pizzasnúðar og einfaldlega sérlega ljúffengt. Yngri dóttir mín sagði: „Þetta er hrikalega gott" og búast má við að yngri kynslóðin verði hrifin!

Athugið að sniðugt er að borða afganginn af rúllunni á þann hátt að taka sneiðarnar og hita þær í ofni.

Að sjálfsögðu má setja ýmislegt annað inn í pizzarúlluna en hér er stungið upp á.

Innihald

4 skammtar
pizzadeig
ólífuolía
salt og svartur pipar
niðursoðnir tómatar eða pizzasósa
rifinn pizzaostur frá Gott í matinn
rifinn cheddarostur frá Gott í matinn
mozzarella kúla, rifin niður
góð skinka
salami eða pepperóní
sneiddar ólífur, svartar eða grænar
jalapeno í þunnum sneiðum
grilluð paprika, þunnt sneidd
hrært egg

Skref1

 • Hitið ofn í 220 gráður.
 • Fletjið pizzadeig út ef þið eruð með kúlu eða heimalagað deig. Það er ágætt að hafa það frekar jafnt á kanta en ekki hringlaga eins og pizzu.

Skref2

 • Smyrjið yfir deigið með ólífuolíu, saltið aðeins og piprið.
 • Dreifið úr góðri tómatsósu úr niðursoðnum, ferskum tómötum yfir deigið, eða notið tilbúna pizzusósu.
 • Skiljið eftir smá rönd við endann fjær sem verður notaður til að loka rúllunni í lokin.

Skref3

 • Dreifið úr rifnum osti yfir deigið, þá cheddar og loks mozzarella.
 • Raðið skinku og salami á deigið, ekki vitlaust að raða til skiptis í raðir yfir deigið.
 • Dreifið úr ólífum, jalapeno og papriku yfir áleggið.
 • Smyrjið endann með hrærðu eggi.

Skref4

 • Rúllið upp.
 • Byrjið nokkuð þétt til að ná fallegri rúllu.
 • Leggið eggjasmurða endann vel að deiginu til að loka rúllunni.
 • Látið sárið snúa niður þegar rúllan er bökuð.

Skref5

 • Setjið rúlluna á bökunarplötu með bökunarpappír.
 • Smyrjið hana með hrærða egginu.
 • Stráið rifnum osti eða cheddar yfir.

Skref6

 • Setjið rúlluna í 220 gráu heitan ofninn í 10 mínútur.
 • Að þeim mínútum liðnum skuluð þið lækka hitann í 180 gráður og baka rúlluna í um 20 mínútur.
 • Fylgist vel með henni í ofninum síðustu mínúturnar svo hún brenni ekki eða brúnist of mikið.
 • Takið þá úr ofninum og borðið rúlluna heita.
Skref 6

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir