Menu
Mozzarella snittur með bökuðum kúrbít, myntu og pikkluðum chilli

Mozzarella snittur með bökuðum kúrbít, myntu og pikkluðum chilli

Ég fæ ekki nóg af mozzarella osti. Hann er eitt af því sem ég á alltaf til í ísskápnum og er elskaður jafn heitt af öllum fjölskyldumeðlimum. Ég hef prófað hann í ótal útgáfum og finnst hann næstum alltaf eiga við.

Þessar snittur taka ostinn þó upp í alveg nýjar hæðir og er samsetningin af ferskum Mozzarella, chilli, kúrbít og myntu, eitthvað sem allir þurfa að prófa!

 

Innihald

4 skammtar
súrdeigsbrauð (eða 8 minni)
hvítlauksrif
mozzarellaostur
lítill kúrbítur, skorinn í þunnar sneiðar með ostaskera
rifinn parmesanostur
ólífuolía
fersk mynta, söxuð
salt og pipar

Snögg pikklaður chilli:

rauður chilipipar (1-2)
hvítvínsedik
vatn
sykur
sjávarsalt

Skref1

 • Byrjið á að gera pikklaðan chilli.
 • Skerið chillipiparinn í þunnar sneiðar og setjið í litla skál.
 • Hrærið saman ediki, vatni, sykri og salti í litlum potti, hitið örstutt þar til sykurinn leysist upp og hellið svo yfir chillisneiðarnar. Látið standa á meðan þið undirbúið restina af réttinum.

Skref2

 • Hitið ofn í 170 gráður með blæstri.
 • Leggið kúrbítssneiðarnar á bökunarpappír á ofnplötu, penslið með þunnu lagi af ólífuolíu og dreifið parmesan osti yfir.
 • Kryddið með salti og pipar.
 • Bakið í 15 mínútur eða þar til þær hafa mýkst og osturinn brúnast.

Skref3

 • Ristið brauðsneiðarnar þar til stökkar.
 • Skerið hvítlauksrif í tvennt og nuddið því yfir heitar brauðsneiðarnar, sáldrið yfir smá ólífuolíu og sjávarsalti.

Skref4

 • Rífið mozzarella kúlurnar jafnt yfir brauðsneiðarnar, með fingrunum þannig að þið fáið grófa og misstóra bita af ostinum.
 • Krumpið saman tvær til þrjár sneiðar af kúrbít og setjið á hverja brauðsneið.
 • Toppið með pikkluðum chilli, smá rifnum parmesan osti, nokkrum dropum af ólífuolíu ásamt ferskri saxaðri myntu.
Skref 4

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir