Menu
Mexíkósk ídýfa með kjúklingi

Mexíkósk ídýfa með kjúklingi

Það er alltaf frekar sniðugt að gefa uppskriftum yfirskrift, þær geta ekki verið of langar og alls ekki of stuttar. Margt sem þarf að rúmast innan skilgreiningarinnar, því fá orð þurfa að geta sagt margt. Það á við um þessa uppskrift.

Þetta er ostaídýfa með kjúklingi þar sem mexíkóskt yfirbragð svífur yfir vötnum. Hún hefur margþætta eiginleika, því hún getur staðið ein og sér sem ídýfa borin fram með nachos, flögum, kexi, grænmeti. Verið sett fram sem pastasósa. Eða hún getur verið fylling í tortillur sem eru hitaðar. Svo getur hún farið í tartalettur. Og að lokum eins og hér; borin fram í litlum tortillum sem eru bakaðar í múffuformi. Erum við ekki öll hrifin af svona uppskriftum sem geta þjónað ýmsum tilgangi?

Innihald

4 skammtar
kjúklingabringur eða 1 heill kjúklingur
ólífuolía
stór rauðlaukur, smátt skorinn
rauð paprika, smátt skorin
gul paprika, smátt skorin
ferskt chilli, smátt skorið (má sleppa)
mexíkókryddblanda að eigin vali
kjúklingasoð (1-2 dl)
mexíkóostur, gróft rifinn
Gamli rjómaosturinn
rjómi frá Gott í matinn (1-2 dl)
rifinn cheddarostur frá Gott í matinn
mjúkar litlar tortillur

Skref1

  • Hitið ofn í 200 gráður.
  • Ef notaður er heill kjúklingur sem búið er að elda, þarf að byrja á því að taka allt kjötið af honum, verka vel og skera í bita.
  • Ef notaðar eru ferskar bringur eða aðrir bitar af ferskum kjúklingi, þá skuluð þið elda hann, steikja, með góðu mexíkókryddi.

Skref2

  • Hitið ólífuolíu eða aðra góða olíu á pönnu og mýkið paprikur, lauk og chillí.
  • Kryddið með salti og cayennepipar eða mexíkókryddi.
  • Hellið 1 dl af kjúklingasoði saman við og hrærið rjómaost og rifinn mexíkóost út í.
  • Látið bráðna vel.
  • Setjið þá rifinn cheddarost saman við, um hálfan poka, og hrærið þar til hann hefur bráðnað.
  • Hafið lágan hita undir pönnu eða potti.

Skref3

  • Blandið kjúklingi saman við ostablönduna á pönnunni og hrærið vel.
  • Ef blandan er þykk er gott að bæta við smá soði og einnig rjóma.
  • Smakkið til með meira kryddi, fer allt eftir því hversu bragðmikla eða sterka þið viljið hafa ídýfuna.
  • Einnig má nota nokkra dropa af tabascosósu.

Skref4

  • Brjótið litlar tortillur varlega ofan í múffuformið.
  • Rifna auðveldlega svo farið rólega í verkið.
  • Setjið rifinn cheddarost í botninn á tortillunum, fyllið upp í þær með ídýfunni og stráið rifnum osti yfir.

Skref5

  • Ef kjúklingaídýfan hefur verið búin til daginn áður og er köld, er ekki verra að hita hana aðeins upp áður en hún er sett í tortillurnar og inn í ofn.
  • Bakið í ofni þar til tortillurnar eru orðnar stökkar að ofan og osturinn orðinn gullinn og vel heitur.
  • Berið fram strax.

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir