Lambafille
					
						- Látið kjötið standa við stofuhita í klukkustund áður en það er steikt til að tryggja að það verði mjúkt eftir steikingu. 
 
						- Skerið létt í fituna til að opna hana upp, saltið og piprið ríkulega. 
 
						- Bræðið smjör á pönnu og þegar það er bráðið bætið timjan greinunum út í. 
 
						- Setjið því næst lambið varlega á pönnuna með fituna niður. Steikið þangað til að hún hefur tekið á sig fallegan gullinbrúnan lit og steikið svo á hinni hliðinni.
 
						- Það er gott að ausa bráðnu smjörinu upp á puruna til að bæta bragð hennar ennþá frekar. 
 
						- Þegar lambið er fallega brúnt að utan er það sett í 180 gráðu heitan ofn og bakað þangað til að kjarnhiti nær 50-54 gráðum (eftir smekk). Hvílið í nokkrar mínútur áður en það er skorið. 
 
					
			Rjómalöguð sveppasósa
					
						- Skerið sveppina í sneiðar eða bita. Flysjið og skerið laukinn og hvítlaukinn smátt. 
 
						- Bræðið smjör í potti og steikið fyrst laukinn í nokkrar mínútur við miðlungshita. Bætið svo sveppunum og lárviðarlaufunum saman við og steikið um stund þar til sveppirnir fara að taka lit. Saltið og piprið. 
 
						- Bætið því næst hvítlauknum saman við og steikið áfram við lágan hita þar til að allur vökvi af sveppunum er gufaður upp og sveppirnir fara að karmelliserast. 
 
						- Hellið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið því næst lambasoðinu og timjaninu saman við og sjóðið niður um þriðjung. Saltið og piprið eftir smekk. 
 
						- Bætið rjómanum saman við og hitið að suðu. Fjarlægið lárviðarlaufin og timjan greinarnar með gaffli. 
 
						- Þykkið sósuna með smjörbollu eða sósujafnara. Smakkið sósuna til. 
 
					
			Kartöflur - Pommes Anna
					
						- Sneiðið kartöflurnar næfurþunnt með mandólíni. 
 
						- Penslið eldfast mót með smjöri. Raðið kartöflunum þétt niður og penslið með smjöri á milli laga auk þess að salta og pipra reglulega. 
 
						- Þrýstið kartöflunum niður í mótið. Penslið efsta lagið með smjöri.
 
						- Bakið á grillinu við óbeinan hita í 45-55 mínútur. 
 
					
                        		
            		Höfundur: Ragnar Freyr Ingvarsson