Menu
Jólamús með grískri jógúrt og sætu kurli

Jólamús með grískri jógúrt og sætu kurli

Titill þessarar uppskriftar segir allt sem segja þarf. Grísk jógúrt er notuð í súkkulaðimús sem er borðuð með kornflekskurli sem geymir lakkrís.

Uppskriftina má aðlaga endalaust að eigin þörfum; hafa ólíkar gerðir af súkkulaði, hafa annað kurl en gefið er upp, annað sælgæti.

Innihald

4 skammtar
grísk jógúrt frá Gott í matinn
rjómi frá Gott í matinn, þeyttur
eggjarauða
maple síróp eða hunang
vanilludropar
súkkulaði, brætt
Rommý, saxað eða After Eight, rommkúlur, allt sem er fyllt og gefur af sér bragð
rommdropar ef Rommý eða rommkúlur eru notaðar

Kurl:

síróp
súkkulaði, dökkt, ljóst eða hvítt
smjör
kornflakes eða rice krispies
lakkrískurl

Jólamús

 • Hrærið saman eggjarauðu, sýrópi og vanilludropum þar til létt og ljóst. Látið bráðið súkkulaðið kólna aðeins og hellið því svo í mjórri bunu saman við eggjablönduna og haldið áfram að hræra í á meðan.
 • Hrærið aðeins upp í jógúrtinni og mýkið hana. Setjið hana í nokkrum hlutum saman við súkkulaðieggjablönduna og blandið vel. Þá fer þeytti rjóminn saman við og áfram skal blanda vel saman en frekar rólega svo músin sé létt í sér.
 • Ef þið kjósið að nota Rommý í músina; saxið súkkulaðið og blandið því saman við hana. Ef þið viljið meira rommbragð má setja rommdropa saman við hana á því stigi þegar eggin eru þeytt.
 • Ef þið kjósið að nota After Eight í músina; saxið súkkulaðið og blandið því saman við hana. Ef þið viljið meira myntubragð má setja myntudropa eða líkjör saman við hana á því stigi þegar eggin eru þeytt.
 • Ef þið kjósið annað bragð í músina er ykkar valið af endalausum möguleikum.

Kurl

 • Bræðið saman sýróp, súkkulaði og smjör á vægum hita, hrærið.
 • Blandið kornfleksi saman við, hrærið.
 • Setjið lakkrískurl saman við og hrærið.
 • Dreifið úr blöndunni á smjörpappír og látið hana kólna og taka sig.

Samsetning

 • Músina er hægt að bera fram í skálum, glösum eða einni stórri skál. Hún er sett í lög og fallegt að bera hana fram í glæru svo sjáist í lögin.
 • Kurl, mús, kurl og mús. Eins og þið kjósið.
 • Skreytið með berjum, meira sælgæti, rifnu súkkulaði, flórsykri. Setjið aðeins í kæli áður en músin er borin fram.
 • Ef þið notið ekki alla músina þá er gott að geyma hana í kæli í góðu boxi því hún endist í nokkra daga. Kurlið sömuleiðis.

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir