Menu
Ísbúa raclette

Ísbúa raclette

Það eru margir sem þekkja raclette. Svissneska réttinn að bræða ost í sérstökum raclette-ofni og borða hann með ýmsu góðgæti. Bræddur osturinn er ómótstæðilegur. Því er ekki að neita að raclette er réttur sem fer vel við haustið og veturinn og meðlætið hjálpar til. En til að heimfæra raclette á Ísland þá er það Ísbúi sem nýtur sín þar í öllu sínu veldi og það er virkilega vert að leyfa honum að vera í aðalhlutverki. Ekki er nauðsynlegt að eiga sérstaklega raclette græju því einnig er hægt að bræða ost á pönnu eða í eldföstu móti í ofni.

Innihald

1 skammtar
Óðals Ísbúi
hráskinka
capers
súrar gúrkur
ólífur
gott brauð

Kartöflubátar

kartöflur
hvítvínsedik
vatn
salt
ólífuolía

Ísbúi í öllu sínu veldi

  • Með Ísbúa-raclette er margt gott að bera fram með. Það sem við notum alltaf eru ofngrillaðir kartöflubátar, hráskinka, capers, súrar gúrkur og ólífur. Þeir sem eru vanir að hafa raclette eiga sjálfsagt sitt uppáhald og er algengt að nota grillið ofan á ofninum til að grilla kjöt og grænmeti. Nýtt brauð spillir ekki fyrir, að hella bræddum ostinum yfir það. En kartöflurnar eru nauðsynlegar með og hér er uppskrift að þeim sem ekki klikkar. Hún er ekki einungis góð með Ísbúa-raclette heldur öllu þar sem ofnbakaðar kartöflur gæða matinn lífi.

Skref1

  • Skerið kartöflur í báta eða litlar kartöflur til helminga.
  • Setjið í pott og látið vatn fljóta rúmlega yfir kartöflurnar.
  • Hellið hvítvínsediki í pottinn, um 2 desilítra á lítra og stráið salti yfir.
  • Látið kartöflurnar standa í vökvanum í 30-60 mínútur.

Skref2

  • Látið suðuna koma upp undir kartöflunum og sjóðið þær þar til þær eru orðnar nokkuð mjúkar en ekki alveg tilbúnar.
  • Hellið þeim í sigti og látið renna mjög vel af þeim.
  • Best er að dreifa úr þeim á eldhúspappír og láta þær þorna vel áður en lengra er haldið. Ef það gengur ekki, gætið þá að því að láta þær þorna eins vel og mögulegt er.

Skref3

  • Setjið kartöflurnar í matvinnslupoka eða í stóra skál.
  • Hellið vel af góðri ólífuolíu yfir þær og blandið vel, þannig að kartöflurnar séu vel smurðar allan hringinn.
  • Setjið í ofnskúffu eða í stórt fat sem má fara inn í ofn.
  • Allra best er að þær liggi einungis í einu lagi en ekki ofan á hver annarri svo þær grillist jafnt.

Skref4

  • Hitið ofn alveg funheitan.
  • Stingið kartöflunum í ofninn og látið þær grillast þar til þær fá á sig jafnan og fallegan gylltan lit.
  • Gott að hræra aðeins til í þeim inn á milli.
  • Berið fram með Ísbúa raclette eða öðrum mat.

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir