Menu
Gulrótakaka með kókosrjómaostakremi

Gulrótakaka með kókosrjómaostakremi

Það er fátt sem toppar nýbakaða gulrótaköku með silkimjúku kremi.

Innihald

12 skammtar
smjör við stofuhita
púðursykur
egg
vanilludropar
hveiti
lyftiduft
matarsódi
salt
kanill
múskat
mjólk
gulrætur, rifnar
ananas, skorinn niður

Kókosrjómaostakrem

smjör við stofuhita
sýrður rjómi frá Gott í matinn
rjómaostur frá Gott í matinn, við stofuhita
flórsykur
vanilludropar
kókos
ristaðar kókosflögur

Gulrótakaka

 • Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 24 cm hringlaga bökunarform.
 • Skerið ananasinn smátt niður, sigtið hann og kreistið sem mestan vökva úr honum.
 • Rífið gulrætur niður í matvinnsluvél og setjið til hliðar.
 • Þeytið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt.
 • Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið.
 • Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil og múskati saman í skál og hrærið vel.
 • Bætið hveitiblöndunni jafnt og þétt saman við deigið ásamt mjólkinni, smátt og smátt.
 • Setjið gulræturnar og ananasinn út í deigið og hrærið varlega saman.
 • Hellið deiginu jafnt í bökunarformin og bakið í miðjum ofninum í 40 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Takið kökurnar úr ofninum og kælið alveg.
 • Skerið hvorn botn í tvennt svo úr verði fjórir botnar.

Kókosrjómaostakrem

 • Hrærið smjör þar til það verður ljóst og létt, bætið sýrða rjómanum út í og hrærið.
 • Skerið rjómaostinn niður í bita og blandið smávegis saman við í einu.
 • Mikilvægt er að rjómaosturinn sé við stofuhita svo auðvelt sé að blanda honum saman við án þess að þurfa að hræra mikið. Með því að hræra of mikið þynnist kremið.
 • Bætið flórsykri saman við, smávegis í einu, og hrærið lítillega á milli.
 • Gott er að skafa hliðarnar á skálinni vel inn á milli til að losna við kekki og til að allt blandist vel saman.
 • Bætið vanilludropum og kókos saman við og hrærið lauslega.
 • Ef ykkur finnst kremið of þunnt er hægt að bæta smá flórsykri saman við.
 • Skiptið kreminu í fjóra hluta og setjið á milli botnanna.
 • Ristið kókosflögur þar til þær hafa náð fallegum gullbrúnum lit og stráið þeim yfir kökuna.
 • Geymið kökuna inni í ísskáp þar til hún er borin fram.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir