Menu
Fylltar kjúklingabringur með chili rjómaosti

Fylltar kjúklingabringur með chili rjómaosti

Þessi réttur hentar ótrúlega vel þegar tíminn er naumur en þig langar til þess að bera fram eitthvað sérstaklega gott. Ert jafnvel með matarboð en tíminn hljóp frá þér og allt í volli. Örvæntið eigi því þennan rétt græja ég að mestu í airfryer en það er auðvitað lítið mál að elda bringurnar í ofni ef þið eigið ekki slíkan grip. Eldunartíminn er hins vegar talsvert styttri ef ég nota airfryer-inn. Rjómaostinn nota ég hvorutveggja í fyllinguna og sósuna og ein dós nýtist að fullu. Ég kann mjög illa við matarsóun og því reyni ég að samnýta hráefni eins og hægt er. Rjómaosturinn er fullkominn í rétti eins og þennan, bragðgóður án þess að vera sterkur. Og allt spilast þetta svo vel saman, safaríkar bringurnar með bragðmikilli fyllingu, lagðar ofan á tagliatelle með dásamlegri rjómasósunni. Þetta verður ekki betra!

Innihald

4 skammtar
kjúklingabringur
beikon
sólþurrkaðir tómatar
sveppir
rjómaostur með grillaðri papríku og chili frá MS
rifinn pizzaostur frá Gott í matinn
fersk steinselja
salt og svartur pipar
hvítlauksduft
paprikukrydd

Rjómlöguð chili sveppasósa

smjör
skallottlaukar (eða 1/3 laukur)
sveppir
vatn
kjúklingateningur
rjómaostur með grillaðri papríku og chili
rjómi frá Gott í matinn
salt og svartur pipar eftir smekk
chiliduft
paprikuduft
fersk steinselja
maizenamjöl blandað saman í 1 msk. vatn

Meðlæti

tagliatelle pasta

Kjúklingabringur - aðferð

 • Skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnu.
 • Skerið sveppina á meðan frekar smátt. Þerrið sólþurrkuðu tómatana og skerið smátt. Setjið til hliðar.
 • Takið beikonið af pönnunni og setjið á eldhúspappír. Látið kólna.
 • Setjið sveppina á pönnuna og léttsteikið þá, setjið þá svo yfir beikonið og kælið.
 • Setjið rjómaostinn, beikonið, sveppina og sólþurrkuðu tómatana í skál. Hrærið saman með skeið. Saxið steinseljuna og blandið henni saman við ásamt pizzaostinum.
 • Skerið vasa í bringurnar en gætið þess að fara ekki í gegn. Fyllið bringurnar með fyllingunni.
 • Kryddið bringurnar að utan með hvítlauksdufti, papriku og salti og pipar.
 • Hitið airfryer í 175°C í 2-3 mín (eða ofninn í 185°C). Setjið bökunarpappír í botninn eða úðið aðeins yfir hann með olíuspreyi.
 • Bakið bringurnar í 13 mín. Takið þá skúffuna út og stráið smávegis af rifnum osti yfir og bakið áfram í 2 mín. Ef þið bakið bringurnar í ofni lengið þá tímann í 25 mín. Bringurnar eru tilbúnar þegar kjarnhitinn er kominn yfir 74°C.
 • Á meðan bringurnar bakast er fullkomið að græja sósuna og sjóða pastað.

Rjómalöguð chili sveppasósa - aðferð

 • Saxið laukinn smátt og skerið sveppina í sneiðar. Ef þeir eru stórir má saxa þá aðeins.
 • Setjið smjörið í pott og bræðið, setjið lauk og sveppi út í og steikið þar til laukurinn er farinn að gyllast.
 • Bætið vatni og kjúklingateningi saman við.
 • Þegar teningurinn er uppleystur bætið þá rjómaostinum saman við. Látið malla í 2 mín. Bætið þá rjómanum saman við.
 • Kryddið sósuna og smakkið til með salti og pipar. Ef ykkur finnst sósan vera of þunn er gott að hræra saman maízenamjöli og vatni saman og bæta því út í sósuna. Við það þykkist hún án þess að verða of þykk.
 • Setjið fersku steinseljuna saman við alveg í lokin.
 • Hitið vatn í rúmum potti. Þegar suðan er komin upp saltið það þá ríflega og bætið pastanu út í vatnið. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum.
 • Þegar allt er tilbúið setjið þá tagliatelle á hvern disk, hellið sósu yfir pastað og skerið bringurnar í sneiðar og setjið ofan á pastað.

Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal