Menu
Desember drottningin

Desember drottningin

Smáköku jólatré með mascarpone vanillurjóma.

Þessi dramadrottning þyrfti eiginlega að vera á öllum hátíðarborðum þessi jólin. Einstaklega bragðgóðar súkkulaðibitakökur lagðar saman með dúnmjúkum vanillu mascarpone rjóma. Það er mjög sparilegt að raða tertunni upp eins og jólatré líkt og ég gerði, en það má líka raða kökunum og rjómanum í fallegt fat og bera fram þannig. Þegar tertan er látin standa mýkjast kökurnar upp í rjómanum og hægt er að skera hana eins og tertu.

Þessi uppskrift er stór og má vel helminga.

Innihald

8 skammtar

Súkkulaðibitakökur:

smjör, mjúkt við stofuhita
púðursykur
sykur
vanilluexrtact
egg
hveiti
matarsódi
sjávarsalt
dökkir súkkulaðidropar eða saxað dökkt súkkulaði

Vanillurjómi:

rjómi frá Gott í matinn
íslenskur mascarpone frá Gott í matinn
flórsykur
fræ úr einni vanillustöng
vanilluextract

Súkkulaðibitakökur

 • Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður án blásturs.
 • Þeytið saman smjör, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum út í einu í einu og þeytið vel á milli.
 • Sigtið saman í skál hveiti, matarsóda og salt og hrærið saman við. Gætið þess að hræra ekki of mikið.
 • Bætið við 300 g af súkkulaði og hrærið öllu saman.
 • Kælið deigið í a.m.k. 1 klst. Deigið má gjarnan gera daginn áður en það er bakað, það verður bara betra við kælinguna.
 • Setjið rúmlega eina matskeið af deiginu á pappírsklædda ofnplötu. Athugið að hafa gott bil á milli þar sem kökurnar renna vel út, ég set 9 kökur á hverja plötu.
 • Bakið í um það bil 10-12 mínútur eða þar til kökurnar hafa brúnast í kantinn og eru enn seigar í miðjunni.
 • ATH ef þið viljið mjög þunnar og seigar kökur er gott ráð að lyfta bökunarplötunni þegar bökunartíminn er um það bil hálfnaður og láta hana detta niður, þá falla kökurnar í miðjunni og verða enn þynnri. Þetta má endurtaka aftur ef kökurnar lyfta sér aftur í miðjunni.
 • Kælið á grind.

Mascarpone vanillurjómi

 • Setjið kaldan rjóma, kaldan mascarpone, flórsykur og vanillu í skál og þeytið þar til fallegir toppar myndast. Þetta tekur nokkrar mínútur.
 • Best finnst mér að setja þetta í hrærivélaskál og hræra á rólegum hraða þar til byrjar aðeins að þykkna, auka þá hraðann og þeyta í mjúka toppa.

Samsetning

 • Setjið smávegis af vanillurjómanum á botninn á kökudiski. Raðið þá fyrsta smákökulaginu þannig að fylli næstum út í jaðrana á diskinum. Setjið þá um það bil 1,5 cm lag af vanillurjómanum ofan á kökurnar og dreifið úr. Haldið áfram þar til þið hafið klárað vanillurjómann og kökurnar (eða það sem klárast fyrst).
 • Athugið að þegar nær dregur efstu lögum jólatrésins er gott að brjóta smákökurnar niður í tvennt eða smærri bita til að koma þeim betur fyrir. Toppið tréð með einni heilli smáköku og vænni doppu af vanillurjóma.
 • Leggið plastfilmu lauslega yfir jólatréð og kælið í ísskáp í a.m.k. 4-6 klst.
 • Dustið smá flórsykri yfir og berið fram.
 • Eftir kælingu hafa kökurnar mýkst þannig að hægt er að skera eins og venjulega tertu.
Samsetning

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir