Bóndadagurinn er rétt handan við hornið. Reyndar bara næsta föstudag ef ég á að vera alveg nákvæm. Bændur eru vissulega eins misjafnir og þeir eru margir en minn kann alltaf vel að meta vel útilátinn heimagerðan hamborgara. Þessi er ekki flókinn í gerð en það sem gerir hann einstakan er cheddarostur með reykbragði sem gengur undir nafninu „Logi“. Með dálitlu af fersku grænmeti, vænum beikonsneiðum, heimagerðri hamborgarasósu og stökkum frönskum til hliðar er þetta algerlega fullkomin bóndadagsmáltíð, tja, allavega fyrir þá sem kunna minna að meta súrmatinn.