Menu
Bóndadagsborgari með beikoni og reyktum cheddar

Bóndadagsborgari með beikoni og reyktum cheddar

Bóndadagurinn er rétt handan við hornið. Reyndar bara næsta föstudag ef ég á að vera alveg nákvæm. Bændur eru vissulega eins misjafnir og þeir eru margir en minn kann alltaf vel að meta vel útilátinn heimagerðan hamborgara. Þessi er ekki flókinn í gerð en það sem gerir hann einstakan er cheddarostur með reykbragði sem gengur undir nafninu „Logi“. Með dálitlu af fersku grænmeti, vænum beikonsneiðum, heimagerðri hamborgarasósu og stökkum frönskum til hliðar er þetta algerlega fullkomin bóndadagsmáltíð, tja, allavega fyrir þá sem kunna minna að meta súrmatinn.

Innihald

2 skammtar
140 g hamborgarar (eða stærri ef vill)
hamborgarabrauð
beikonsneiðar
Logi, cheddar ostur með reykbragði
salat, magn eftir smekk
rauðlaukur, skorinn í sneiðar
tómatur, skorinn í sneiðar
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Hamborgarasósa

majónes
18% sýrður rjómi frá Gott í matinn
tómatsósa
amerískt gult sinnep
hvítlauksduft
laukduft
paprikuduft
fljótandi reykur (liquid smoke)
sýrðar gúrkur með dilli, fínt saxaðar

Meðlæti

franskar kartöflur

Heimagerð hamborgarasósa

  • Byrjið á því að útbúa hamborgarasósuna og geymið í kæli á meðan rest er græjuð.
  • Setjið majónes og sýrðan rjóma í skál og hrærið saman.
  • Bætið tómatsósu og sinnepi saman við og hrærið.
  • Setjið þá restina af innihaldsefnunum saman við og hrærið vel.
  • Látið taka sig í kæli á meðan þið græjið hamborgarana.

Bóndadagsborgarinn

  • Takið hamborgarana og þrýstið vel á þá með höndunum og fletjið enn meira út. Kryddið ríflega með salti og pipar. Setjið til hliðar.
  • Skerið grænmetið og hitið ofn eða airfryer og hitið franskar eftir leiðbeiningum.
  • Steikið beikonið.
  • Steikið því næst hamborgarana á þykkbotna steypujárnspönnu eða grillið á útigrilli. Þegar borgurunum er snúið, leggið þá sneið af Loga yfir hamborgarann. Það má alveg setja tvær sneiðar af ostinum á hvorn borgara, allt eftir því hvað ykkur hugnast!
  • Þegar borgarinn er tilbúinn er gott að hita brauðin í örskamma stund í ofninum.
  • Mér finnst best að raða á hamborgarana þannig að á botninn komi fyrst sósa, því næst salatblöð, þá tómatsneiðar, þá borgarinn, ofan á hann kemur þá rauðlaukurinn, beikonsneiðar og svo lokað með toppbrauðinu sem hefur verið smurt vel með hamborgarasósunni.
  • Njótið með stökkum frönskum og það er ljómandi gott að nota restina af hamborgarasósunni sem ídýfu.

Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal