Menu

Gott í matinn - grillráð

  • Munið að leggja grillteina úr tré í bleyti í a.m.k. 30 mín. fyrir notkun.
    Grillteinar úr stáli eru ákaflega góð fjárfesting.
  • Allt kjöt sem á að grilla, en þó einkum stærri eða þykkari bita, er betra að taka úr kæli góðri stund áður en það fer á grillið. Þannig verður steikningin jafnari og komið er í veg fyrir að steikin verði hrá og köld í miðjunni.
  • Þegar kryddlögur er notaður er best að pensla matinn með honum rétt í lokin svo hún brenni síður. Þetta á sérstaklega við þegar kryddlögurinn er sætur. Ef maturinn hefur verið látinn liggja í kryddlegi er best að strjúka löginn vel af áður en maturinn fer á grillið og pensla svo í lokin.
    Ef nota á kryddlög sem hrátt kjöt hefur legið í sem sósu með steikinni þarf að sjóða löginn í nokkrar mínútur.
Áhöld
Grill

Að undirbúa grillið: Mikilvægt er að hita grillið vel með lokinu yfir áður en byrjað er að grilla. Síðan þarf að bursta grindurnar með vírbursta þegar þær eru orðnar vel heitar. Rétt áður en maturinn er settur á grillið er gott að væta eldhúspappír með matarolíu og strjúka yfir grindurnar til að maturinn festist síður við þær.

Að grilla við beinan hita: Það er þegar maturinn er settur á grindina beint fyrir ofan logana og feiti og safi lekur ofan á brennarann eða kolin. Logar gjósa þá oft upp og leika jafnvel um matinn og hætta er á að hann brenni ef ekki er höfð gát á. Þessi aðferð hentar einkum fyrir þunnar steikur og annað hráefni sem best er að grilla hratt við háan hita.

Að grilla við óbeinan hita: Það er þegar maturinn er ekki hafður beint yfir loganum heldur til hliðar við hann. Næstum öll gasgrill eru með fleiri en einum brennara, ef það eru þrír brennarar er best að hafa matinn í miðjunni en stilla hliðarbrennarana á meðalhita. Í kolagrilli er kolunum ýtt til hliðanna, álbakki settur ofan í miðjuna og maturinn hafður yfir honum á grind. Þá þurfa ventlar líka að vera opnir til þess að hitinn dreifist betur.
Þegar grillað er við óbeinan hita þarf að hafa grillið lokað til að hitinn rjúki ekki burt heldur safnist upp og umljúki matinn svo að hann grillist jafnt og brenni ekki. Þessi aðferð hentar vel til að grilla öll stærri stykki og hráefni sem þarf tiltölulega langan tíma á grillinu. Með þessari aðferð er t.d. einfalt að grilla lambalæri, stórar steikur, heila kjúklinga og jafnvel að baka pítsur.
Það skal hafa í huga að eldunartími getur verð breytilegur eftir því á hvaða grilli er verið að elda , því skal hafa uppgefna eldunartíma hér fyrir neðan aðeins til viðmiðunar.
Margir eiga kjöthitamæla sem gott er að grípa til þegar verið er að elda þykkari kjötbita eða heil læri.
Það er t.d. góð regla að skera í eldaðan kjúkling til þess að vera fullviss um að hann sé fulleldaður og engin blóðvökvi sýnilegur í kjötinu.

Grill uppskriftir
Kjötstykki Lítið steikt Meðalsteikt Vel steikt
Lambakjöt      
Læri, heilt (óbeinn hiti) 1 klst. 15 mín 1 klst. 30 mín 1 klst. 45 mín
Læri, úrbeinað og flatt 25 mín 30 mín -
Lærisneiðar og kótilettur, 2½–3 cm þykkar 4-5 mín 6–8 mín 10–12 mín
Fillet 6-8 mín 8–10 mín 10–12 mín
Framhryggjarsneiðar 6-8 mín 8–10 mín 10–12 mín
Nautakjöt      
Nautalund, heil 30-35 mín 40–50 mín -
Lund eða fillet í 4cm sneiðum 4 mín 5–7 mín -
T-Bein-steik, entrecote eða Porterhouse í 4cm sneiðum 6-8 mín 10–12 mín 12–14 mín
Svínakjöt      
Svínalund, heil - 20–25 mín 25–30 mín
Fillet í 2½ cm sneiðum - 8–10 mín 10–12 mín
Rif (óbeinn hiti) - - 1½–2 klst
Kjúklingur      
Kjúklingur stór, heill - - u.þ.b. 80-90 mín
Kjúklingur stór, heil útflattur - - u.þ.b. 50-60 mín
Kjúklingarleggir - - 30mín
Kjúklingabringur - - 20mín

Í öllum tilvikum er um að ræða heildargrilltíma og miðað við að kjötinu sé snúið að minnsta kosti einu sinni.

Í lokin
Þegar kjöt og fiskur er grillað gilda sömu lögmál og við aðrar steikingaraðferðir: Mikilvægt er að taka ekki matinn beint af grillinu og skella honum á borðið. Kjöt og fiskur þarf að bíða og jafna sig, þunnar sneiðar í aðeins örfáar mínútur en stórar steikur eins og lambalæri í allt að 15–20 mínútur hulið með álpappír.