- +

Vanillukaka með jarðarberjarjóma og súkkulaðiglassúr

Botn:
115 g smjör
225 g sykur
2 stk. egg
170 g hveiti
1½ tsk. lyftiduft
¼ tsk. Maldon salt
125 ml mjólk
3 tsk. vanilludropar

Jarðarberjarjómi:
½ l rjómi
10 stk. jarðarber, maukuð
10 stk. jarðarber, heil

Súkkulaðiglassúr:
60 g flórsykur
2 msk. dökkt kakó
30 g smjör
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

Botn:

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 24 sm hringlaga bökunarform. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið einu eggi í senn út í og hrærið stuttlega á milli. Setjið hveiti, lyftiduft og salt saman í skál og hrærið. Blandið vanilludropum saman við mjólkina. Blandið þurrefnum og mjólk saman við til skiptis þar til allt hefur blandast vel. Passið þó að hræra ekki of mikið því þá á kakan það til að verða seig. Setjið deigið í bökunarformið og bakið í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Passið ykkur að baka þennan botn ekki of lengi því þá verður hann þurr og ekki eins mjúkur. Kælið botninn alveg, takið beittan hníf eða kökusög og skerið botninn í tvo hluta. 

 

Einnig er gott að gera tvöfalda uppskrift og gera tvo botna ef þið viljið hærri og meiri köku.

 

Jarðarberjarjómi:

Maukið jarðarberin í matvinnsluvél eða blandara þar til þau eru orðin að vökva. Þeytið rjóma og hellið svo jarðarberjamaukinu saman við og hrærið varlega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið jarðarberjarjómann á milli botnanna, raðið heilum jarðarberjum meðfram brúninni á kökunni og setjið hinn botninn ofan á.

 

Súkkulaðiglassúr:

Blandið flórsykri og kakói saman í skál. Bræðið smjör og hellið saman við og hrærið vel. Bætið því næst vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Notið heitt vatn til þess að ná kreminu mjúku og fínu en passið að gera það ekki of þunnt. Gott er að láta kremið standa stutta stund á borði til þess að það þykkni aðeins. Ef kremið er of þunnt á það til að leka niður alla kökuna og út af diskinum. Hellið kreminu varlega yfir kökuna og leyfið því að leka rólega niður hliðarnar.
 

Skreytið kökuna með jarðarberjum og bláberjum eða öðrum berjum að eigin vali. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir