- +

Þriggja hæða marens með súkkulaðikremi og súkkulaðieggjahreiðri

Marens:
6 stk eggjahvítur
3½ dl sykur
3 msk kakó
1 tsk hvítvínsedik

Súkkulaðikrem
6 stk eggjarauður
1 dl sykur
3 msk kakó
2 msk hveiti
3 dl matreiðslurjómi
3 dl rjómi
100 g suðusúkkulaði
1 tsk vanillusykur

Hreiður
2 pokar Cadbury egg, lítil

Meðlæti
létt þeyttur rjómi

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 120°C og blástur.

2. Stífþeytið eggjahvítur. Bætið sykri saman við smátt og smátt og þeytið. Setjið kakó og edik út í og hrærið í 2 mínútur til viðbótar.

3. Mótið þrjá hringi úr marensinum, sem eru u.þ.b. 20 cm í þvermál á ofnplötur klæddar bökunarpappír. Bakið í klukkutíma. Látið standa í ofninum þar til hann er orðinn kaldur.

4. Hrærið eggjarauður og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið kakói og hveiti saman við. Hrærið.

5. Hitið matreiðslurjóma og rjóma saman í potti að suðu. Hellið út í eggjahræruna og hrærið saman. Hellið aftur í pottinn og látið malla á lágum hita. Hrærið stöðugt í þar til kremið sýður og þykknar. Tekur smá stund. Takið þá strax af hellunni og bætið súkkulaði og vanillusykri saman við. Hellið í skál og kælið.

6. Smyrjið marensbotnana með súkkulaðikreminu og leggið þá saman. Toppið með kremi og smá eggjum. Berið fram með létt þeyttum rjóma.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir