- +

Lúxus fylltar sætar kartöflur

Innihald:
1 stk stór kjúklingabringa
1 stk stór sæt kartafla
½ dós nýrnabaunir
½ stk rauðlaukur
1 stk kókosmjólk, lítil dós
fetaostur að vild
10 stk döðlur
rifinn ostur
cayenne pipar og annað krydd eftir smekk

Aðferð:

1. Kartaflan er skorin í tvennt eftir endilöngu, pensluð með olíu og sett inn í ofn (hýðið upp) á 200° í klukkutíma eða þar til hún er orðin alveg mjúk í gegn.

2. Þegar kartöflurnar hafa verið inni í um 40 mínútur er fínt að byrja að útbúa fyllinguna. Döðlurnar, laukurinn og nýrnabaunirnar eru skornar í litla bita.

3. Kjúklingurinn er einnig skorinn í mjög litla bita og steiktur á pönnu upp úr olíu og kryddi.

4. Þegar kjúklingurinn er orðinn eldaður í gegn er kókosmjólkinni, fetaostinum, döðlunum, lauknum og nýrnabaunum bætt út í og látið malla í 5-10 mínútur.

5. Þegar kartaflan er tilbúin er skafið innan úr henni, t.d. er hægt að nota ísskeið. Það þarf að passa að skilja smá kartöflu eftir í köntunum svo það sé auðveldara að fylla hana. Það sem tekið er úr kartöflunni er blandað saman við fyllinguna á pönnunni og loks er öllu skóflað aftur upp í bátinn.

6. Ostinum er stráð ofan á og kartöflurnar settar inn í ofn í 10 mínútur eða þar til osturinn er alveg bráðnaður.

Gott að bera fram með fersku salati og/eða góðu brauði.

Höfundur: Gígja S. Guðjónsdóttir