- +

Ofnbakaðar kjúklingabringur með rjóma, bræddum osti, vínberjum og ólífum

Innihald
4 stk kjúklingabringur
sjávarsalt og svartur pipar
smjör
2 stk skallottulaukar, saxaðir
2½ dl vínber, rauð
2½ dl Kalamataólífur, steinlausar
1 msk ferskt rósmarín, fínsaxað
1½ dl hvítvín
1 dl kjúklingasoð eða sama magn af vatni og kjúklingakraftur eins og segir á leiðbeiningunum
2½ dl rjómi eða matreiðslurjómi
100 g gratínostur

Aðferð:

Kveikið á ofninum og stillið hann á 200°C. Þerrið bringurnar og kryddið ríkulega með salti og pipar. Setjið smá smjörklípu á pönnu og steikið bringurnar gullnar báðum megin til að loka þeim. Færið bringurnar svo yfir í eldfast mót. Svissið laukinn, vínberin og ólífurnar í örstutta stund á sömu pönu og dreifið yfir kjúklingabringurnar. Setjið vín, kjúklingasoð, rjóma og rósmarín á pönnuna og látið sjóða niður í u.þ.b. 10 mínútur. Hellið soðinu yfir bringurnar og dreifið loks ostinum yfir þær. Bakið í ofni í 15 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar og eldaðar í gegn. Eins er gott að nota kjúklingaleggi eða –læri í þennan rétt en þá þarf bara að lengja eldunartímann um a.m.k. 30 mínútur.

Tillögur að meðlæti: hrísgrjón og gufusoðið spergilkál, kartöflumús eða soðið pasta.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir