- +

Sterk og seðjandi mexíkósk kjúklingasúpa

Hráefni:
5 stk beikonsneiðar, skornar í bita
300 g kjúklingabringa, skorin í bita
sjávarsalt og svartur pipar
1 stk rauð paprika, skorin í bita
1 stk lítill rauðlaukur, skorinn í bita
1 stk jalapeno eða 1 grænt chili, fræhreinsað og fínsaxað
2 stk hvítlauksrif, fínsöxuð
7½ dl vatn og 1,5 stk. kjúklingakraftsteningur
1 stk sæt kartafla
2½ dl maísbaunir
2 dl rjómi
1 stk lárviðarlauf
¼ tsk cayennepipar
4 msk kóríander, fínsaxað

Meðlæti
ofnbakaðar tortillur með salsa (sjá uppskrift í flokknum Mexíkóskt)
sýrður rjómi, eftir smekk
límónusneiðar
rifinn mozzarellaostur í poka, eftir smekk

Aðferð:

1. Steikið beikonið í potti. Leggið til hliðar á eldhúsblað. Saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið í sama potti. Setjið til hliðar.

2. Steikið papriku og rauðlauk í stutta stund. Látið jalapeno/chili og hvítlauk saman við og steikið í 1 mínútu.

3. Setjið vatn og teninga saman við sem og kartöflubita. Látið malla á vægum hita undir loki í 10 mínútur. Gott að hræra í af og til.

4. Bætið þá út í kjúklingabitum, maísbaunum, rjóma, lárviðarlaufi, cayennepipar og kóríander. Látið malla í 15 mínútur. Hendið þá lárviðarlaufinu.

5. Hellið súpunni í skálar. Berið fram með sýrðum rjóma, beikoni, rifnum osti, límónusneiðum og tortillum.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir