- +

Þorskhnakkar í rauðum hafrahjúp með tómat- og rjómaostasósu

Innihald:
800 g þorskhnakkar (um 6 stk.)

Rasp:
3 dl haframjöl (3-4 dl)
½ tsk. salt
½ tsk. svartur pipar
2 tsk. paprika, mulin
2 tsk. tandoori, indversk blanda
1 egg til að velta fisknum upp úr

Tómat- og rjómaostasósa
3 laukar
3 dl tómatsósa
½ dl vatn (1/2 - 1 dl)
100 g smjör (100 - 125 g)
3 msk. rjómaostur frá Gott í matinn (eða meira eftir smekk)

Meðlæti:
Soðnar og ristaðar kartöflur og salatblanda

Aðferð:

Sósa: Skerið laukinn, ýmist í sneiðar eða í litla bita. Allt eftir hentisemi. Bræðið smjörið og setjið laukinn saman við. Lækkið hitann og látið laukinn malla í smjörinu, t.d. á meðan verið er að búa til raspið. Látið laukinn mýkjast vel í smjörinu (8 - 12 mínútur). Setjið tómatsósuna og vatnið saman við lauksmjörið og hrærið. Það má alveg setja ögn af pipar saman við þessa sósu ef þannig liggur á manni. Setjið rjómaostinn saman við, látið hann bráðna í sósunni og smakkið til.

Rasp: Setjið haframjölið í blandara og myljið það rétt aðeins til þess að fá það fínmalað í bland við grófmalað. Blandið kryddi saman við.

Sláið eggið létt saman á djúpum diski.

Hitið smjör eða olíu (eða bæði) á pönnu. Veltið fiskbitunum upp úr eggi og síðan upp úr raspinu. Setjið fiskbitana á heita pönnu og steikið þá nokkrar mínútur á hvorri hlið. Lækkið hitann aðeins. Gott er að geyma bitana sem búið er að steikja í heitum ofni á meðan allir fiskbitar eru steiktir. Þannig að allt helst heitt.

Eftir að kartöflurnar eru soðnar eru þær skornar tvennt, settar í eldfast mót, stappaðar rétt aðeins með gaffli, og smjörklípa sett yfir. Stingið þeim inn í ofn og látið þær ristast á meðan þið klárið að útbúa matinn.  

Berið fram með fallegu grænu salati.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal