- +

Fylltar bollur

Innihald:
100 g smjör, brætt
3½ dl mjólk
2 tsk. þurrger
1 dl sykur
1 tsk. kardimommukrydd
½ tsk. salt
8 dl hveiti

Fylling:
Sulta, súkkulaði, sítrónusmjör (lemon curd), Nutella eða marsípan
Flórsykur til skrauts

Aðferð:

Um 24 stk.

 

Setjið mjólkina saman við brætt smjörið. Passið að vökvinn sé ekki of heitur. Blandið geri, sykri, salti og kardimommukryddi saman við. Hrærið. Setjið hveitið saman við smátt og smátt. Þið þurfið kannski ekki allt magnið sem upp er gefið. Betra að deigið sé í blautari kantinum þegar það fer í hefingu. Látið deigið hefast í skálinni undir plastfilmu í 45 mínútur.

 

Hnoðið deigið niður og búið til langa pylsu. Skiptið henni niður í 24 jafna bita og mótið bollur. Gerið djúpa holu með þumalfingri og setjið fyllinguna þar ofan í. Best er að magn fyllingar miðist við um 1 tsk. Þegar fyllingin er komin í holuna er gott að klípa hliðarnar saman, móta bolluna til og setja síðan sárhliðina á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Látið hefast í 20-30 mínútur. Penslið með pískuðu eggi. Bakið í 7-8 mínútur við 250°.

 

Látið bollurnar kólna aðeins og sáldrið svo flórsykri yfir.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir