Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Sjávarréttasúpa með karrí og lime
27. janúar 2017

Sjávarréttasúpa með karrí og lime

Ég bjó til súpu. Súpur geta verið hin besta máltíð ef hráefninu er púslað rétt saman og nóg er af grænmeti og öðru góðgæti í þeim. Þessi súpa er ekki maukuð heldur fær hráefnið að njóta sín í mátulega stórum bitum.

Uppskriftin er sett saman eftir mínu höfði með öllum þeim brögðum sem að mínu mati eru spennandi og góð. Í uppskriftinni er m.a. limelauf en þau fást bæði þurrkuð og frosin og er bragðið sem kemur af þeim mjög spennandi. Sítrónugras fæst í flestum búðum og smakkast það dásamlega. Það þarf að berja sítrónugrasið með t.d. kökukefli eða kjöthamri svo það opnist og svo skera það í búta og sjóða með súpunni. Ég set alltaf meira af öllum jurtum og kryddi en uppskrift segir til um – og mæli því með að byrja smátt og fikra sig svo áfram í að bragðbæta.

Upplagt er að bera þessa súpu fram með naanbrauði og raitu, sem er jógúrtsósa með rifinni gúrku og aðeins af hvítlauk.

Sjávarréttasúpa með karrí og lime

Einföld uppskrift dugar fyrir fjóra

 

3-4 gulrætur skornar í þunnar sneiðar

1 stk. fennel u.þ.b. skorið í þunnar sneiðar

1 stk. blaðlaukur (ég nota allan) skorinn í þunnar sneiðar

3-5  kartöflur, skornar smátt í teninga

½-1 sæt kartafla, skorin í litla teninga

3-5 tsk. karrí (eftir smekk)

3-5 tsk. túrmerik (eftir smekk)

nokkrar chiliflögur

1 lítri vatn  

1 msk. hvítvínsedik

3 teningar grænmetiskraft eða kraftur með fisk

3 stönglar sítrónugras

limelauf/límónulauf (alveg hægt að sleppa)

nokkrir dropar Worchestershiresósa

2-3 dl matreiðslurjómi eða 1 dós kókósrjómi (400 ml)

300 g ýsa

200 g rækjur (ef þær eru til)

salt og grófmalaður svartur pipar

 

Skraut

1 lúka spínatblöð

 

 

 

 

Aðferð

Skerið gulrætur, fennel, blaðlauk og kartöflur í bita. Léttsteikið í smjöri eða olíu.

Stráið karrí, túrmerik og chiliflögum yfir.

Hellið vatni og ediki saman við og bætið grænmetis-/fiskiteningum saman við.

Látið sjóða í rúmlega 10-15 mínútur.

Berjið sítrónugrasið léttilega svo það opnist. Finnið yndislegan ilminn og skerið það í búta. Setjið bútana í súpuna ásamt limelaufum og worchestershiresósu.

Hellið rjóma eða kókósrjóma saman við.

Skerið fiskinn í bita og setjið út í súpuna með rækjunum.

Smakkið til með salti og pipar.

Látið malla í rúmlega 10-15 mínútur eða lengur ef það hentar á mátulegum hita.

Skreytið með spínat í lokin. 

Verði ykkur að góðu!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!