Thelma Þorbergsdóttir
Heilhveiti bananamúffur með glassúr
16. ágúst 2013

Heilhveiti bananamúffur með glassúr

Jæja þá eru allir að koma sér í rútínu og sumarið búið...eða mér líður allavega þannig og mér líður pínu eins og ég hafi misst af sumrinu! Kannski því ég eyddi mest öllu sumarfríinu inni að baka fyrir bókina mína sem kemur út núna í haust, en ég grét það ekki því það kom ekki sól fyrr en ég tók mér pásu frá bakstrinum. Við fjölskyldan eyddum viku á fjölskylduóðalinu okkar, Hjörsey. Hjörsey er eyja á Faxaflóa og er algjör paradís!!

 

Hérna eru krúttin mín á ströndinni í sveitinni. Hildur vildi bara vera í hvítum kjól allan tímann og að sjálfsögðu fékk hún það! Kristófer buslaði í sjónum eins og ekkert væri og hoppar út um allt, þar sem hann er nýfarinn að ná tökum á þvísmiley Við foreldrarnir erum ótrúlega stolt af þeim framförum og hann fær að hoppa allstaðar, í rúminu, sófanum og hvað eina!

Við gömlu erum líka spræk smiley

 

 

 

Heilhveiti banana múffur með glassúr

Þessar unaðslega góðu múffur henta sérstaklega vel með morgunkaffinu, eða bara við hvaða tækifæri sem er.

U.þ.b. 15 stk. Bökunartími 15 mín.

320 g heilveiti

1 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

½ tsk salt

½ tsk kanill

½ tsk múskat

1 egg

85 g dökkur púðursykur

60 g smjör, bráðið

1 ½ dl mjólk

1 tsk vanilludropar

2 þroskaðir bananar


Hitið ofninn í 180 gráður og raðið bollakökuformum í bökunarform. Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti, kanil og múskati saman í skál og hrærið. Hrærið egg og púðursykur saman í skál, bætið vanilludropum saman við. Setjið brædda smjörið saman við mjólkina og blandið því saman við, hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Stappið bananana vel og blandið þeim saman við og hrærið. Bætið því næst hveitiblöndunni rólega saman við og hrærið léttilega þar til allt hefur blandast saman.

Setjið deigið í formin og passið ykkur að fylla þau ekki meira en 2/3, u.þ.b. 1,5 msk í hvert form. Bakið í 15-18 mín eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Passið ykkur að baka þær ekki of lengi því þá verða þær þurrar. Kælið kökurnar alveg.

Glassúr

50 g smjör bráðið

150 g flórsykur

½ tsk vanilludropar

2 msk mjólk

Bræðið smjörið í potti yfir meðal háum hita. Þegar smjörið hefur náð að bráðna er það hitað þar til það hefur náð dökkbrúnum lit og farið að freyða örlítið. Þetta tekur rúmlega 5 mín. Þegar smjörið er brúnað í pottinum gefur það glassúrnum alveg einstaklega gott bragð.

Setjið flórsykur í skál og hellið brædda smjörinu saman við, bætið við vanilludropum og mjólk saman við og hrærið þar til glassúrið er orðið mjúkt og fallegt. Ef ykkur finnst það ennþá of þykkt bætið þá smá mjólk saman við, ef það verður of þunnt þá bætið smá flórsykri saman við.

Dýfið hverri köku ofan í glassúrinn og borðið! Gott með ískaldri mjólk eða kaffi.


Ég skellti líka í eitt stykki brúðartertu um helgina en Rakel systir mín var að gifta sig. Hún heppnaðist alveg ótrúlega vel og sló í gegn í veislunni.

 

 

Blaut súkkulaðikaka með vanillukremi

 

Er ótrúlega stolt af systur minni! Svo flott og klár kona smiley já og ekki má gleyma því að hún er alveg ótrúlega hress!

OMG ég er að fara giftast Mr. Handsome eftir minna en 3 vikur!!

 

Ég ætla að sjálfsögðu að baka okkar köku sjálf og ég hugsa að ég deili henni  með ykkur í næsta bloggi skref fyrir skref. Þetta er mun minna mál en það lítur út fyrir að vera.

 

Þangað til næst!

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!