Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Fermingarterta með jarðarberjabragði
06. mars 2018

Fermingarterta með jarðarberjabragði

Rjómatertur þykja hvers manns yndi í veislum. Það er einfalt að baka svampbotninn og fyllingin er dásamlega góð og tekur enga stund að útbúa. Tertan er hjúpuð sykurmassa og einnig skreytt með honum. 

Uppskrift: 

Botn 2 stk:

6 stk. egg

260 g sykur  

100 g hveiti  

100 g kartöflumjöl  

2 tsk. lyftiduft

Fylling:

1 ½ l rjómi frá Gott í matinn

1 pakki Jello jarðarberja

10 stk. makkarónur

1 dós blandaðir ávextir

Sykurmassi: 

350 g sykurpúðar

950 g flórsykur

5 msk. vatn

Matarlitur 

 

Aðferð: 

Egg og sykur þeytt vel saman þar til létt og ljóst.

Hveiti, kartöflumjöli og lyftidufti blandað varlega saman við. 

Deiginu hellt í tvö hringlaga mót. 

Bakað við 175 gráða hita í 18-20 mínútur. 

Þegar botnarnir hafa kólnað er rjóminn þeyttur. Rjómanum er síðan skipt í 3 hluta. 

Blandaðir ávextir eru settir yfir neðri botninn og makkarónurnar muldar yfir. 

1 hlutinn af rjómanum er smurður yfir. 

Síðan er Jello dufti blandað saman við 2 hluta af rjómanum. Hrært varlega saman við með sleikju. Þá er jarðarberjarjómanum smurt yfir. 

 

Það er hægt að kaupa tilbúinn Sykurmassa en ef gera á massann sjálfur þarf að fylgja leiðbeiningum sem hér fylgja: 

Sykurpúðarnir eru settir í glerskál sem smurð er með palmínfeiti ásamt vatninu. Sykurpúðarnir eru síðan hitaðir í örbylgjuofni þar til þeir hafa bráðnað. Nauðsynlegt að hræra í þeim á mínútufresti. Flórsykrinum er þá blandað saman við, fyrst helmingnum og síðan restinni. Massinn er hnoðaður og geymdur í plastpoka þar til hann er flattur út. Ef lita á ákveðinn hluta massans þá er matarlit blandað saman við og hnoðað vel. 

Efri botninn er settur yfir og kakan smurð með 3ja hlutanum af rjómanum. 

Sykurmassinn er flattur út. Það kemur skemmtilega út að fletja massann út á munsturmottu en einnig hægt að fletja út á hefðbundinni mottu. 

Kakan er að lokum skreytt með perluborða, fiðrildum og blómum. Notuð eru sílíkonmót til að búa til skreytingarnar.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!