Helena Gunnarsdóttir
Hvít súkkulaði skyrterta með Maltesers-botni
10. ágúst 2015

Hvít súkkulaði skyrterta með Maltesers-botni

Það er alveg sama hversu oft skyrtertur eru lagðar á borð í veislum hjá mínu fólki, alltaf slá þær í gegn. Ég bauð upp á þennan eftirrétt í sumarbústað á dögunum en mér finnst einstaklega hentugt að gera eftirrétti sem ekki þarf að baka í svoleiðis ferðalögum. Svo er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín þegar engin er matvinnsluvélin eða kökukeflið til að mylja kexið í botninn. Tveir sterkir plastpokar, kyrfilega lokaðir og bústaðagestum leyft að labba yfir kexið er til dæmis hinn skemmtilegasti samkvæmisleikur! Áferðin á botninum verður bara betri fyrir vikið. 

Innihald:

500 gr vanilluskyr

3,5 dl rjómi

1 vanillustöng

150 g hvítt súkkulaði

135 g Maltesers súkkulaðikúlur (1 poki)

200 g Lu bastogne kanilkex

100 g smjör, brætt

Bláber og jarðarber til skrauts

 

Aðferð:

Myljið súkkulaðikúlurnar og kexið saman í frekar grófa mylsnu. Bræðið smjörið og hrærið því saman við mylsnuna. Þrýstið vel í botninn á lausbotna kökuformi. Kælið. Bræðið súkkulaðið varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Skafið fræin úr vanillustönginni og setjið saman við rjómann og þeytið saman þar til stífþeyttur. Blandið rjómanum varlega saman við skyrið og bætið bræddu súkkulaðinu saman við. Hellið yfir kexbotninn og kælið í a.m.k. 2 klst. Losið úr forminu og skreytið með berjum. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!