Helena Gunnarsdóttir
Gratínerað pasta í chilli tómatsósu
25. júlí 2017

Gratínerað pasta í chilli tómatsósu

Einstaklega fljótlegur og ljúffengur pastaréttur sem öll fjölskyldan hefur fallið fyrir. Þetta er ekta þægindamatur, en það vita allir að stundum er stórt fat af pasta og osti það eina sem þarf. Ég get allavega lofað því að brosið á heimilisfólki verður aðeins breiðara þegar þetta er borið á borð.

Gratínerað pasta í chilli tómatsósu

400 g ostafyllt pasta, t.d. tortellini eða ravioli

3 msk. ólífuolía

1 laukur

2-3 hvítlauksrif

1 rauður chillipipar

1 dós niðursoðnir tómatar (má líka nota 3-4 smátt saxaða vel þroskaða ferska tómata í staðinn, það er ekki verra)

1 dl vatn

1 msk. tómatsósa (ketchup)

Sjávarsalt og pipar

2 mozzarellakúlur, skornar í sneiðar.

1 dl rifinn parmesan ostur

Aðferð:

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum á pakkanum. Athugið að ef þið notið ferskt pasta er best að sjóða það frekar þegar sósan er tilbúin. Saxið lauk, hvítlauk og chillipipar smátt. Ég nota fræin og allt úr chillipiparnum en ef þið viljið ekki sterka sósu má fræhreinsa hann áður. Steikið þetta allt saman í ólífuolíunni við meðalhita í 3-4 mínútur eða þar til laukurinn er mjúkur í gegn, gætið þess að hafa ekki of háan hita á pönnunni. Hellið tómötunum saman við, ásamt vatni og tómatsósu. Kryddið vel með salti og pipar og látið malla/sjóða í 10-15 mínútur. Smakkið til með kryddi. Hellið elduðu pastanu saman við sósuna og hrærið vel saman. Toppið með mozzarella osti og parmesan. Setjið undir vel heitt grill í ofni í 5 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!