Halla Bára og Gunnar
Ostasalat í heitum tartalettum
24. maí 2018

Ostasalat í heitum tartalettum

Það er alltaf eitthvað skemmtilega gamaldags og heillandi við fylltar, heitar tartalettur. Sömuleiðis við gamaldags ostasalat með vínberjum. En hvað með að skella þessum tveimur góðu uppskriftum saman og njóta alls þess besta sem þær hafa að bjóða? Ekki galið og ég prófaði það um daginn þegar ég fékk vinkonur mínar í reglulega hádegisheimsókn. Virkilega gott og alltaf kærkomið að bæta góðri uppskrift við í bókina með heitu réttunum sem spila á klassísku strengina!

1 dós smurostur skinkumyrja

3 msk. sýrður rjómi frá Gott í matinn

2 msk. majones

1 msk. rjómi frá Gott í matinn

1 hrært egg

Salt, pipar, pínu paprikukrydd, aromat

Þrír ostar að eigin vali; Dala Brie, Dala Auður, paprikuostur, Óðals Búri...

Vínber

Má bæta við smátt saxaðri, rauðri papriku sem og smátt söxuðum vorlauk

Rifinn ostur frá Gott í matinn

Tartalettur

 

Hitið ofn í 200 gráður. Hrærið saman skinkumyrju, sýrðum rjóma, majonesi og rjóma þar til mjúkt og kekkjalaust. Hrærið egg og hellið því út í. Hrærið allt saman í áferðarfallega blöndu. Kryddið eftir smekk.

Skerið ost sem þið veljið ykkur að nota, í pena og huggulega bita. Hrærið þá saman við smurostsblönduna.

Skerið vínber í tvennt eða fernt, allt eftir stærð þeirra. Skerið papriku og vorlauk smátt ef þið kjósið að nota það hráefni með. Hrærið í smurostsblönduna.

Þessi blanda á að duga ágætlega í einn pakka af tartalettum. Ausið blöndunni í hverja tartalettu og stráið rifnum osti yfir. Alltaf betra að hafa frekar meira af henni en minna í tartalettunum. Setjið í heitan ofn og bakið þar til ostablandan er vel heit, bubblar meðfram hliðunum og osturinn að ofan er orðinn gullinbrúnn. Berið fram heitt.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!