Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Beyglur úr möndlumjöli og osti
09. janúar 2018

Beyglur úr möndlumjöli og osti

Eins mikið og ég elska jólin, þá finnst mér alltaf jafn gaman að pakka þeim niður. Jahh öllu nema ljósunum. Það er algjör nauðsyn að hafa þau áfram í skammdeginu.

Fyrir jólin ákvað ég að prófa að útbúa beyglur og heppnuðust mjög vel.

Virkilega góðar beint úr ofninum með rjómaosti og sultu.

Einnig er mjög gott að skera þær í tvennt og rista og fá sér smjör og góða ostsneið með kaffinu.

Svo uppáhald barna minna, skera í tvennt. Setja pizzusósu og álegg sem til er í ísskápnum, smá rifin ost og pizzukrydd og inn í heitan ofn þar til osturinn er orðin gylltur. Voila. Beyglupizza!

Beyglur

200 g möndlumjöl

280 g Heimilis rifinn ostur

60 g rjómaostur frá Gott í matinn

2 egg

1 tsk. lyftiduft

Sesamfræ

Krydd t.d óreganó eða pizzakrydd fyrir þá sem vilja

 

Möndlumjöl og lyftiduft blandað saman og sett til hliðar.

Pískið eggin vel saman og ef þið ætlið að krydda beyglurnar, setjið kryddin með eggjunum.

Rjómaostur og rifinn ostur settir í skál og inn í örbylgjuofn í 2 mínútur. 

Takið út og hrærið vel saman. Ef osturinn er ekki alveg bráðnaður, setjið aftur í örbylgju í smá stund og endurtakið.

Möndlumjöl og egg bætt við ostinn og blandið mjög vel saman. Ef það verður erfitt, setjið aftur í örbylgju í 10 sekúndur og hrærið í. Endurtakið ef þess þarf þar til deigið er vel blandað saman.

Skiptið deiginu í 6 hluta og rúllið út með blautar hendur og útbúið hring á bökunarpappír svo úr verður beygla. Stráið sesamfræjum yfir.

 

Bakið á 180 gráðum í 12-15 mín eða þar til gylltar.

 

Borðið heitar.

Gott er að frysta beyglurnar og skera í sundur og rista.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!