Gígja S. Guðjóns
Jólaís með Toblerone og piparkökum
09. desember 2015

Jólaís með Toblerone og piparkökum

Ég hef alltaf verið hrifin af ís í desert, það er einhvern veginn sama hversu saddur maður er þá er alltaf pínu pláss fyrir ís. Ef ég ætti að nefna súkkulaði sem minnir mig á jólin þá er það Toblerone, ég veit ekki hvað það er en mér hefur alltaf fundist Toblerone rosalega jólalegt og ekki skemmir fyrir þegar búðir byrja að selja risa Toblerone svo maður fái alveg örugglega súkkulaði overdose.
Þetta er fyrsti jólaísinn sem ég geri þar sem ég verð í fyrsta skipti með aðfangadagsmat á mínu heimili í ár. Því fannst mér um að gera að prófa að útbúa jólaís með þeim hráefnum sem mér finnst jólaleg –  rjómi, Toblerone og piparkökur.
Útkoman var æðisleg, piparkökurnar og Tobleroneið fara æðislega vel saman í rjómaísinn og það hlakkar í mér að njóta íssins með fjölskyldunni á aðventunni.

Hráefni:

500 ml rjómi

4 egg

1 msk vanilludropar

hnífsoddur salt

8 msk flórsykur

150 g Toblerone

100 g piparkökur

Aðferð:

- Eggin og flórsykurinn er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós.
- Saltinu og vanilludropum bætt við og hrært.
- Tobleroneið og piparkökurnar saxað í litla bita.
- Rjóminn er þeyttur sér og svo er öllu blandað saman varlega með sleif.

Blandan sett í form og inn í frysti, best er að útbúa ísinn kvöldið áður.

Kökuna skreytti ég með jarðarberjum, Toblerone og Mars íssósu sem er æðisleg með ísnum.

Mars íssósa:

4 Mars súkkulaðistykki

50 g rjómasúkkulaði

200 ml rjómi

Allt sett í pott og brætt saman við vægan hita án þess að sjóða.

 

Njótið vel og gleðileg jól, kæru lesendur.


 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!