Erna Sverrisdóttir
Pasta með ostahjúpuðum kjúklingalundum og mozzarella
25. október 2013

Pasta með ostahjúpuðum kjúklingalundum og mozzarella

Matur geymir minningar. Og það gerir þessi réttur sannarlega. Ég bragðaði hann fyrst á ítölskum-amerískum veitingastað í New York fyrir nokkrum árum. Í hvert skipti sem ég elda þennan góða rétt vakna minningar um notalega kvöldstund á köldu janúarkvöldi. Ég bað þjóninn um uppskriftina og fékk hana í grófum dráttum. Þetta er matarmikill og seðjandi réttur, því get ég lofað. Kjúklingalundirnar eru sérlega safaríkar og mjúkar. Það gerir hreina jógúrtin sem þær liggja í áður en þær eru eldaða. Meyrar að innan en stökkar að utan. Rétturinn er fyrir 4 til 6.

600 g kjúklingalundir

2 ½ dl hrein jógúrt

2 dl brauðmylsna, gerð úr brauðteningum með ítölsku kryddi

3 dl rifinn parmeseanostur

sjávarsalt og svartur pipar

3 msk smjör

500 g pasta

3 hvítlauksrif

3 msk balsamikedik

1 ¼ dl ólívuolía

1 ¼ dl ítölsk steinselja eða basilíkum

1 poki litlar mozzarellakúlur, skornar í fernt

Meðlæti:

parmeseanostur

sítrónubátar

 

 

 

Ég byrjaði á því að láta lundirnar liggja í jógúrtinni í 30 mínútur. Á meðan muldi ég brauðteningana í matvinnsluvél. Það mætti alveg eins setja þá í poka og berja með kökukefli. Þá reif ég ostinn niður og blandaði saman við brauðmylsnuna. Saltaði örlítið en pipraði vel. Setti síðan á fat og lagði til hliðar. Enn var eftir af tímanum svo ég skelli mér í að gera sósuna fyrir pastað. Ég byrja á því að merja hvítlauksrifin með 1 tsk. af Maldon salti. Setti síðan balsamikedikið saman við og hellti ólívuolíu smátt og smátt saman við í mjórri bunu á meðan ég pískaði ákaft. Úr varð þykk og bragðgóð salatsósa. Sósuna pipraði ég vel. Þetta er líka mjög góð sósa á ferskt salat, sérstaklega á salat sem er með beikoni eða kjúklingi. Þá var kominn tími á að fylla stærsta pott heimilisins af vatni og hefja suðu á pastanu. Í þetta skipti var ég með penne. Ég átti enn tíma eftir svo ég saxaði steinseljuna og skar mozzarellakúlurnar í bita. Nú var kominn tími á ofninn sem var stilltur á 260°. Síðan bræddi ég 3 msk af smjöri og þá var tími kjúklingalundanna kominn. Ég tók mestu jógúrtina af með höndunum og velti svo hverri lund upp úr osta-brauðmylsnublöndunni. Lagði þær síðan á bökunarplötu sem ég var búin að smyrja með örlitlu smjöri. Restinni af smjörinu hellti ég síðan yfir lundirnar. Ég hafði þær 12 mínútur inni í ofni. Lét þær svo bíða í smá stund og skar þær í bita. Á meðan lundirnar voru í ofninum sauð pastað. Pastanu var síðan velt upp úr sósunni og steinselju og loks var ostinum blandað saman við. Sett á huggulegt fat og kjúklingabitunum góðu raðað ofan á. Þetta er síðan borið fram með parmeseanosti og sítrónubátum. Algjörlega ómissandi að kreista sítrónusafa yfir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!