- +

Heitur brauðréttur með Mexíkóosti og Doritos

Innihald:
1 stk. samlokubrauð - skorið í litla teninga
2 stk. kjúklingabringur - skornar í litla bita
½ l matreiðslurjómi
1 dós paprikusmurostur
½ dós rjómaostur
1 stk. mexíkóostur
1 stk. kjúklingateningur
2 tsk. karrí
1 stk. paprika
1 stk. laukur
1 dós tómatpúrra
Hvítlauksblanda eftir smekk
Rifinn mozzarella ostur
Doritos

Aðferð:

1. Skorpan er skorin af brauðinu. Brauðið síðan skorið í litla teninga. Brauðteningarnir eru svo settir í smurt eldfast mót. 

2. Kjúklingabringurnar eru skornar í litla bita og þeir síðan steiktir upp úr smjöri og hvítlauksblöndu. 

3. Paprika og laukur steikt upp úr smjöri, krydduð með hvítlauksblöndunni og sett í skál til hliðar.

4. Matreiðslurjómi, rjómaostur, paprikusmurostur, tómatpúrra og karrí er sett í pott og hitað þar til allt hefur blandast saman.

5. Mexíkóosturinn er skorinn smátt og settur saman við rjómafyllinguna.

6. Þegar osturinn hefur bráðnað er kjúklingnum, paprikunni og lauknum blandað saman við.

7. Rjómafyllingin er sett yfir brauðteningana og hrærð saman við. 

8. Rifnum mozzarella osti er sáldrað yfir brauðréttinn og hann hitaður við 180°C hita í um 25-30 mínútur. 

9. Þegar brauðrétturinn hefur hitnað í gegn og osturinn tekið smá lit er hann tekinn út úr ofninum og Doritos sáldrað yfir réttinn.

Höfundur: Hjördís Dögg Grímarsdóttir