- +

Eplalengja með pekanhnetum

Innihald:
1 pakki tilbúið smjördeig
30 g smjör
2 tsk. kanill
20 g sykur
300 g epli
2 msk. hveiti
1 msk. vanillusykur
100 g pekanhnetur

Aðferð:

Fyrir um 8-10

 

Skerið smjördeigið í tvennt eftir endilöngu svo úr því myndist tvær ílangar ræmur. Setjið smjör, kanil og sykur í pott yfir meðal háan hita þar til smjörið hefur bráðnað alveg. Flysjið eplin og skerið þau smátt niður og setjið þau saman við, hækkið hitann og látið eplin krauma í rúmlega 5 mínútur í pottinum, hrærið allan tímann svo blandan brenni ekki. Takið pottinn af hellunni og kælið í 5 mínútur. Bætið hveiti og vanillusykri saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið pekanhentu gróflega niður og setjið saman við. Setjið eplablönduna ofan á aðra smjördeigsræmuna og dreifið úr henni jafnt og þétt. Setjið hina ræmuna ofan á og festið hliðarnar saman með gaffli. Penslið eggjahvítu yfir lengjuna og stráið kanilsykri yfir, gott er að skera aðeins ofan í deigið eins og sjá má á mynd. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega gullinbrúnt. Best er að bera fram kökuna heita með ís eða rjóma.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir