- +

Rísottó með sólþurrkuðum tómötum og gullosti

Innihald
100 g smjör
3 msk ólífuolía
1 stk laukur eða rauðlaukur, skorinn smátt
250 g arborio-hrísgrjón, rísottógrjón
100 ml hvítvín, má sleppa
1 l kjúklingasoð
150 g parmesanostur
salt og svartur pipar
2 dl sólþurrkaðir tómatar, skornir smátt
1 stk gullostur eða annar svipaður ostur, skorið utan af honum og hann í litla bita


Aðferð:

Bræðið smjörið og olíuna saman í potti á lágum hita. Mýkið laukinn í um tíu mínútur. Hrærið grjónin saman við og látið lauk- og smjörblönduna þekja hvert grjón þannig að það fái á sig nokkuð glæran tón. Hér er hvítvínið sett saman við grjónin ef vilji er til, en takið eftir að víninu má sleppa. Hrærið vel, látið sjóða og vínið sýður fljótt upp.

Hér þurfið þið að vera búin að gera soð og hafa það tilbúið heitt í potti. Ausið tveimur ausum af soði (stórum ausum) í upphafi út í grjónin og það bullsýður í fyrstu, hrærið vel og lækkið hitann svo suðan verði jöfn og góð.

Hellið annarri ausu af soði saman við þegar vökvinn hefur nánast soðið upp og hrærið vel. Haldið svona áfram þar til soðið er búið í pottinum. Þetta ferli tekur um 18 til 20 mínútur. Hér á rísottóið að vera orðið mjúkt undir tönn, grjónin aðskilin, það skal vera nokkuð rjómakennt og flæða aðeins þegar það er sett á disk. Alls ekki stíft og þétt viðkomu.

Smakkið grjónin, þau eiga að vera „al dente” eins og pastað, ekki lin og ekki hörð. Hrærið parmesanostinn saman við grjónin og saltið og piprið ef þarf. Hrærið loks tómatana varlega saman við ásamt gullostinum og látið hann bráðna vel. Berið strax fram með rifnum parmesanosti.

Rísottó má ekki standa lengi því þá verður það of þétt og missir réttu áferðina sem er mjög mikilvæg til að njóta réttarins til fullnustu.

 

 

Höfundur: Halla Bára og Gunnar