- +

Kartöflugratín

Innihald:
Smjör til að smyrja mótin/mótið að innan
Stórt hvítlauksrif, kramið
Ögn af múskati og cayenne-pipar
500 ml matreiðslurjómi frá Gott í matinn
1 tsk. salt
2 tsk. svartur pipar, malaður
900 g kartöflur, skornar eins þunnt og hægt er
200 g rifinn gratínostur frá Gott í matinn

Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið eldfast mót að innan með smjöri. Takið meðalstóran pott og setjið í hann allt sem fer í réttinn nema ostinn. Hrærið varlega í pottinum svo að kartöflurnar festist ekki við botninn. Hleypið suðunni upp og látið malla áfram í fimm mínútur. Bætið um helmingnum af ostinum út í og hrærið. Hellið úr pottinum í eldfasta mótið, jafnið kartöflunum í það og gætið þess að þær standi ekki upp úr sósunni. Stráið afgangnum af ostinum yfir og bakið í 45–60 mínútur eða þar til osturinn er orðinn fallegur á litinn. Gott er að stinga gaffli í kartöflurnar til að athuga hvort þær séu orðnar mjúkar. Ef til eru jafnmörg lítil eldföst mót og fjöldi þeirra sem borða má skipta kartöflunum í þau þannig að hver og einn fá eitt mót á diskinn sinn.

Höfundur: Inga Elsa Bergþórsdóttir