- +

Tex-Mex tortilla pizza með kjúkling og klettasalati

Innihald
6 stk stórar tortillakökur
4 stk kjúklingabringur
1 stk hvítlauksgeiri
1 bréf enchilada kryddblöndu
1 poki pizzaostur rifinn
1 dós salsasósa
1 stk rauðlaukur
6 stk tómatar
1 poki klettasalat eða annað salat
1 dós 10% sýrður rjómi

Guacamole
2 stk avacado, vel þroskuð
1 stk sítróna, safinn
3 stk tómatar
1 stk hvítlauksgeiri
½ stk rauðlaukur
kóríander
salt og pipar

Setjið smá ólífuolíu á pönnu og hitið, skerið kjúklingabringurnar í mjóa strimla og steikið. Þegar kjúklingurinn er alveg að verða tilbúinn raspið þá saman við 1 stk. hvítlauksgeira og steikið alveg. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn setjið þá enchilada kryddblönduna saman við kjúklinginn ásamt smá vatni (ath. leiðbeiningar á bréfi). Setjið tortillakökurnar inn í ofn og hitið á um 200 gráðu hita, hitið þær báðu megin í örskamma stund. Takið tortillurnar út og setjið salsasósu á hverja köku fyrir sig og dreifið vel úr henni. Raðið kjúklingnum á tortillurnar og setjið pizzaost yfir og setjið inn í ofn. Takið tortillurnar út þegar osturinn hefur náð að bráðna alveg. Skerið rauðlauk og tómata niður og setjið ofan á ostinn. Setjið því næst klettasalatið yfir pizzuna ásamt rjómaosti.

Toppurinn er að bera pizzuna fram með einföldu heimagerðu guacamole.

 

Aðferð, guacamole:

Skerið avocado í tvennt, losið steininn og skafið innan úr þeim með skeið. Ef það er vel þroskað er stundum nóg að stappa það bara vel en ég notast yfirleitt alltaf við matvinnsluvél. Ef þið viljið hafa það vel gróft mæli ég með því að þið stappið það.

Setjið avocado í matvinnsluvél ásamt tómötunum, hvítlauksgeiranum og safa úr einni sítrónu. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman og komin er mjúk og fín áferð á blönduna.

Setjið blönduna í skál, skerið rauðlaukinn smátt niður og blandið saman við ásamt smá (handfylli) af kóríander. Saltið og piprið af vild.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir