- +

Pasta með aspas og mozzarellabrauð

Aspas-pasta basta
400 g pasta, soðið skv. leiðbeiningum al dente
3 dl pastasoð
2 msk ólífuolía
1 msk mjúkt smjör
6 stk stórar sneiðar af hráskinku, skornar í frekar smáa bita (6-8 sneiðar)
1 búnt ferskur aspas, skorinn í þunnar sneiðar
fersk basilíka, lúkufylli, sneidd þunnt
2 dl rjómi (2-3 dl)
1 dl parmesanostur, rifinn
salt og pipar

Heitt mozzarellabrauð
mjúk baguette-brauð
mjúkt smjör
mozzarellakúla, þunnt sneidd
salt
hvítlaukur, ef vilji er til

Aðferð:

Olía og smjör brætt á pönnu. Hráskinka sett á heita pönnuna og látin malla þangað til hún er orðin pínu stökk á brúnunum. Aspas bætt saman við og allt látið blandast vel saman. Rjóma hellt yfir og örlítil suða látin koma upp til að allt malli á pönnunni.

Gerið þetta á meðan að pastað sýður. Basilíkan fer út í sósuna og allt hrært saman. Núna pastavatnið. Þá parmesanosturinn. Smakkið til með salti og pipar og gott getur verið að strá örlitlu af krafti í duftformi í sósuna. Látið malla þar til sósan þykknar aðeins.

Hellið af pastanu þegar tilbúið (ekki gleyma að halda pastavatni fyrir sósuna!) Hrærið sósuna saman við pastað og berið fram með meiri parmesanosti.

 

Heitt mozzarellabrauð

Skerið raufar í brauðið, en ekki alveg niður, skal haldast saman. Setjið smjörklípu ofan í hverja rauf, sem og mozzarellasneið. Ef þið viljið hafa hvítlauk fer hann líka með. Leggið brauðið á ofnplötu eða í form. Rífið smá meiri ost yfir brauðið og stráið örlitlu salti með. Stingið í heitan ofn þar til osturinn er bráðinn og brauðið gullið. Berið fram með pastanu. 

Höfundur: Halla Bára og Gunnar