- +

Baka með skinku, spergilkáli og osti

Innihald
salt
pipar
bökudeig útflatt
250 g spergilkál
180 g góð skinka, skorin í bita (180-200 g)
100 g rifinn mozzarella-ostur
200 g rjómaostur, mjúkur
3 egg
250 ml matreiðslurjómi

Aðferð:
Nota má keypt, útflatt deig eða búa til deig úr 250 g af hveiti, 100 g af smjöri, 1 eggi, svolitlu salti og ísköldu vatni eins og þarf til að unnt sé að hnoða deigið saman og fletja út. Leggið það yfir meðalstórt bökumót og snyrtið brúnirnar. Leggið bökunarpappír yfir og setjið farg ofan á (t.d. þurrkaðar baunir eða hrísgrjón). Bakið við 200°C í 15 mínútur. Takið mótið þá út og fjarlægið pappírinn með farginu. Lækkið hitann í 180°C.

Skiptið spergilkálinu í litla kvisti á meðan bökuskelin er í ofninum og sjóðið í saltvatni í opnum potti í 6-8 mínútur. Hellið í sigti. Dreifið spergilkáli, mozzarella-osti og skinkubitum í bökuskelina. Hrærið saman rjómaost, egg og matreiðslurjóma, kryddið með pipar og salti og hellið yfir. Bakið í miðjum ofni í 35-45 mínútur, eða þar til yfirborðið er fallega gullinbrúnt og hnífur sem stungið er í miðja bökuna kemur hreinn upp. Berið bökuna fram heita, volga eða kalda.

Höfundur: Nanna Rögnvaldsdóttir