- +

Steikartaco með lárperusósu og fetaostmulningi

Innihald:
400 g nautasteik t.d. entrécote
Ólífuolía
1 msk. steinselja
¼ rautt chili
Hvítlauksrif
Salt og pipar

Mangósalsa:
1 mangó
10 kirsuberjatómatar
½ laukur
1 msk. smátt söxuð steinselja
Ólífuolía
Salt og pipar
Safi úr hálfu lime

Lárperusósa:
350 g grísk jógúrt frá Gott í matinn (1 dós)
1 stór lárpera (avocado) eða 2 litlar
1 msk. smátt saxaður kóríander
1 tsk. hunang
Safi úr hálfu lime
Salt og pipar

Aðferð:

Saxið niður steinselju, chili og hvítlauk. Blandið saman við ólífuolíu og nuddið steikina upp úr marineringunni, kryddið einnig með salti og pipar.

Hitið grillpönnu og setjið kjötið á þegar pannan er orðin mjög heit, steikið í um það bil fimm til sex mínútur á hvorri hið. Það fer auðvitað eftir þykktinni á kjötinu og smekk hvers og eins.

Kjötið þarf að hvíla í lágmark sex mínútur þegar það er tilbúið.

Þegar kjötið er búið að hvílast er gott að skera það í þunnar sneiðar og bera fram með tortillavefjum, hreinum fetaosti, mangósalsa og ljúffengri lárperusósu.

 

Mangósalsa:

Skerið hráefnið smátt og blandið saman í skál, hellið smá ólífuolíu saman við og kryddið til með salti og pipar. Rétt áður en þið berið salatið fram kreistið þið vel af límónusafa yfir.

 

Lárperusósa:

Setjið öll hráefnin í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til sósan er orðin silkimjúk. Berið strax fram og njótið.

 

Höfundur: Eva Laufey Kjaran