- +

Salsabaka með kjúklingi og rjómaosti

Bökubotn:
250 g spelt eða hveiti (gott að nota gróft og fínt til helminga)
100 g kalt smjör
1 dl heitt vatn (1/2 - 1 dl)
½ tsk salt

Fylling:
2 stk litlar kjúklingabringur, skornar smátt
1 stk rauð paprika, smátt skorin
1 stk laukur, smátt saxaður
tacokrydd eða annað gott mexíkóskt krydd eftir smekk
125 g rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn (helst við stofuhita)
180 g sýrður rjómi 18%
4 stk egg
3 dl salsasósa
200 g rifinn gratínostur

Aðferð:

Þessi baka er dásamleg. Ekta saumaklúbbsréttur eða þægilegur kvöldmatur. Innihaldið minnir ef til vill dálítið á hina frægu "Eðlu" ídýfu sem er svo sannarlega ekki til að skemma fyrir.

 

Bökubotn - aðferð:

Skerið smjörið í litla teninga, vinnið allt nema vatnið saman með höndunum þannig að úr verði sandkennd mylsna. Bætið vatninu smám saman út í og vinnið áfram með höndunum þar til deigið loðir vel saman án þess að vera klístrað. Leggið deigið á hveitistráð borð og fletjið út þannig að það nái að þekja botn og hliðar á forminu sem þið notið. Ágætt er að nota lausbotna smelluform í þessa böku eða bara venjulegt eldfast mót. Stingið göt á botninn með gaffli og bakið í 15 mínútur við 180 gráður. Gerið fyllinguna á meðan. 

Fylling - aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður. Steikið kjúklinginn þar til nánast eldaður í gegn, bætið þá grænmetinu á pönnuna, kryddið og steikið áfram þar til það mýkist og kjúklingurinn er eldaður í gegn. Setjið til hliðar. Pískið saman rjómaost, sýrðan rjóma, egg, salsa sósu og helminginn af rifna ostinum. Setjið kjúklinginn og grænmetið í bökubotninn. Hellið svo eggjablöndunni yfir og stráið restinni af ostinum yfir. Bakið í 30-40 mínútur eða þar til eldað í gegn.  Gott að leyfa bökunni að kólna í um 15 mínútur áður en hún er skorin. 

 

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir