- +

Súkkulaðisprengjan Hekla

Botn
1 kassi Oreo-kex (u.þ.b. 200 g)
50 g smjör, brætt

Súkkulaðifylling
100 g síríussúkkulaði
100 g 70% súkkulaði
2 dl nýmjólk
1¼ dl rjómi
2 msk og 1 tsk púðursykur
2½ msk sykur
2 msk maisenamjöl
2½ msk viskí, eða líkjör að eigin vali, eða appelsínusafi
2 stk eggjarauður
sjávarsalt á hnífsoddi

Krem
2½ dl rjómi
⅔ dl sýrður rjómi, 18%

Skraut
rifið dökkt súkkulaði / rifið hvítt súkkulaði / kakóduft

Aðferð:

1. Myljið oreokexið með bræddu smjöri í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Setjið í bökuform sem er 26 cm í þvermál eða í annað form sem tekur 7 ½ dl í rúmmál. Þrýstið mylsnunni niður og upp með börmunum. Setjið í kæli í 30 mínútur.

 

2. Brjótið súkkulaðið ofan í pott og hellið mjólk og rjóma yfir. Bræðið saman á meðalhita. Hrærið í og takið af hitanum þegar suðan er um það bil að koma upp.

 

3. Hrærið saman á meðan í hrærivélaskál, púðursykri, sykri, maisenamjöli, viskí, eggjarauðum og salti. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og hrærið saman. Þvoið pottinn og hellið eggja-súkkulaðiblöndunni ofan í hreinan pottinn. Hitið á meðalhita. Hrærið stöðugt í þar til suðan er um það bil að koma upp og blandan er orðin þykk. Slökkvið undir pottinum og hrærið áfram í u.þ.b. mínútu. Takið af hitanum og kælið aðeins. Hellið síðan yfir oreokexbotninn. Setjið í kæli í a.m.k. 3 tíma eða lengur.

 

4. Setjið sýrðan rjóma og rjóma í hrærivélaskál og þeytið þar til stíft. Dreifið yfir kökuna og sáldrið súkkulaði eða kakó yfir.

 

Þessa köku er hægt að útbúa með góðum fyrirvara og hana má hæglega tvöfalda ef margir eru um hituna. Ef lítill tími er til undirbúnings má líka sleppa súkkulaðifyllingunni í kökunni og skera í staðinn niður þrjá til fjóra banana í sneiðar, velta þeim upp úr smá sítrónusafa og dreifa yfir botninn. Toppa svo með kreminu og bera fram með heitri súkkulaði- eða karamellusósu.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir