- +

Marensrúlluterta með bláberjum og rjóma

Marens
4 stk eggjahvítur
2½ dl sykur
50 g kókosflögur

Fylling
½ l rjómi eða 2,5 dl rjómi og 2,5 dl grísk jógúrt
300 g bláber
flórsykur til skrauts

Aðferð:

Stillið ofn á 200°C. Strjúkið innan úr hrærivélarskálinni með hvítvínsediki eða sítrónusafa til að losna við alla fitu sem kann að vera í skálinni – besta ráðið fyrir fullkominn marens. Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykrinum saman við smátt og smátt, t.d. ein matskeið í einu á 30 sekúnda fresti. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið marensinum þar ofan á. Viðmiðunarstærð er 40x30 cm en má vera minni. Setjið plötuna í efstu rim í ofninum og bakið í 8 mínútur við 200°. Takið þá plötuna út og dreifið kókosflögum yfir marensinn. Lækkið hitann á ofninum í 160° og bakið áfram í miðjum ofni í 10 mínútur. Á meðan er rjóminn léttþeyttur, ýmist handþeyttur eða með þeytara/í hrærivél. Þegar marensinn er tilbúinn er honum hvolft á bökunarpappír og látinn kólna. Rjómanum er síðan smurt á og gómsætum bláberjum dreift yfir. Að lokum er kökunni rúllað upp og flórsykri sáldrað yfir. Dásamlega gott!

Höfundur: Erna Sverrisdóttir