- +

Frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri vanillukremsfyllingu og súkkulaðiganache

Kökubotn
150 g smjör, brætt
100 g suðusúkkulaði
3 msk kakóduft
4 stk egg
1½ dl sykur
örlítið salt
1¾ dl hveiti

Vanillukrem
3 stk eggjarauður
½ dl rjómi
½ dl sykur
2 tsk vanillusykur
100 g smjör

Súkkulaðiganache
100 g suðusúkkulaði
2 msk rjómi

Aðferð:

Botninn:
1. Bræðið smjörið, takið það af hitanum og setjið súkkulaðiplötuna í smjörið. Látið hana bráðna og bætið við kakóduftinu. Blandið saman.

2. Þeytið egg og sykur. Hellið smjör- og súkkulaðiblöndunni saman við eggjaþeytinginn og hrærið varlega þannig að blandist vel.

3. Síðast er hveiti og salt hrært saman við.

4. Hellið deiginu í form og bakið neðarlega í ofninum.

5. Kælið kökuna vel (í frysti) áður en hún er skorin í tvennt. Ekki búast við því að botninn verði eitthvað svakalega hár, en það er samt sem áður alveg hægt að skera hann í tvennt.

 

Vanillukrem:
Setjið eggjarauður, rjóma, sykur og vanillusykur í pott. Látið suðuna koma upp og hrærið stöðugt í á meðan. Fylgist mjög vel með. Þegar blandan hefur þykknað þónokkuð er potturinn tekinn af hitanum og smjörið sett út í og því hrært saman við. Setjið í kæli og látið þykkna aðeins meira.

 

Súkkulaðiganache:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og hrærið svo rjómann saman við. Látið kólna.

 

Samsetning:
Skerið botninn í tvennt.

Smyrjið vanillukremi yfir botnana og setjið þá saman.

Hellið súkkulaðiganache-inu yfir kökuna og dreifið fallega yfir hana.

 

Skreytið með jarðarberjum, myntulaufum, hindberjum, bláberjum eða hverju því sem ykkur dettur í hug.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal