- +

Frönsk jógúrtkaka með grískri jógúrt

Jógúrtkaka:
100 g mjúkt smjör, skorið í litla bita og smá til viðbótar til að smyrja kökumótið að innan
170 g sykur
2 egg
250 g grísk jógúrt við stofuhita
1 tsk. vanilludropar
240 g hveiti
1½ tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
250 ml sulta, t.d kirsuberja-, rifsberja-, eða sólberjasulta
250 ml rjómi frá Gott í matinn, þeyttur

Marenstoppar:
Matarlitur í ýmsum litum
4 eggjahvítur meðalstórar
175 g sykur

Aðferð:

Jógúrtkaka aðferð:

Hitið ofninn í 180°C, með undir- og yfirhita. Smyrjið meðalstórt hringlaga smelluform (25 cm) með smjöri og stráið örlitlu hveiti í það. Takið fram stóra skál og þeytið sykurinn og mjúkt smjörið vel saman. Hrærið egg, jógúrt og vanilludropa saman við. Sigtið hveiti, lyftiduft og matarsóda yfir og hrærið því saman við.
Hellið deiginu í mótið og jafnið með sleikju. Bakið í u.þ.b. 45 mínútur. Fylgist vel með kökunni á meðan hún er að bakast og gætið þess að hún brenni ekki. Ef hún er að verða of dökk er hægt að leggja álpappír eða smjörpappír yfir hana. Takið kökuna úr ofninum. Látið hana standa í minnst 5 mínútur áður en hún er losuð úr mótinu. Látið kökuna kólna áður en hún er skreytt með sultu að eigin vali, þeyttum rjóma og marglitum marenstoppum.
Marenstoppar aðferð:
Hitið ofnin í 120°C. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær verða hálfstífar. Bætið sykrinum smátt og smátt saman við með teskeið. Þeytið áfram þar til marensinn er orðinn alveg stífur. Skiptið marensinum í nokkrar skálar, jafnmargar og litirnir sem á nota til þess að lita hann. Bætið nokkrum dropum af lit í hverja skál og blandið honum varlega saman við. Setjið marensinn með teskeið á smjörpappír, passið að hafa nóg pláss á milli toppanna. Lækkið hitann á ofninum í 100 gráður og bakið toppanna í 100 mínútur. Ef þið eruð með tvær plötur í einu í ofninum er gott að snúa þeim við og færa neðri plötuna upp og þá efri niður. Takið toppanna úr ofninum og látið þá kólna.

 

Höfundur: Inga Elsa Bergþórsdóttir