- +

Eplakaka með vanillukremi

Eplablanda:
3 epli (3-4 fer eftir stærð)
½ dl sykur
1 msk. kanill

Kaka:
180 g smjör, mjúkt
4 dl sykur
3 egg
2 dl mjólk (gott að hafa nýmjólk)
4 dl hveiti
1 msk. vanillusykur eða vanilludropar
1 msk. lyftiduft
15 kardimommu kjarnar, muldir (15-16 stk - um 2-3 tsk.)

Vanillukrem:
2 eggjarauður
2 msk. sykur
1 msk. vanillusykur eða 1 vanillustöng
3 dl þeyttur rjómi frá Gott í matinn

Aðferð:

 

Eplakaka:

Ofnhiti: 175 °C

Takið til ofnskúffuform (25 x 30 cm) og setjið í það bökunarpappír eða smyrjið það með feiti og dustið með t.d. hveiti eða kókos. Takið hýðið af eplunum og skerið þau í nokkuð þunna báta. Blandið sykri og kanil saman í skál og veltið eplasneiðunum upp úr blöndunni.

Þeytið smjöri og sykri saman þar til það er orðið mjög ljóst og létt og sykurinn búinn að blandast vel saman við smjörið.

Bætið eggjunum saman við, einu í einu (mér finnst best ef eggin eru við stofuhita) og þeytið vel á milli. Hellið mjólk ásamt vanilludropum/sykri út í og blandið saman.

Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið varlega saman við. Hellið deiginu í formið. Raðið eplabitunum yfir deigið með því að þrýsta þeim létt ofan í. Þeir sökkva ofan í kökuna þegar hún bakast. Það er mjög gott að strá ögn af kanilsykri yfir kökuna áður en hún bakast.

Bakið kökuna neðarlega í ofninum í 25 -35 mínútur.

Látið kökuna kólna aðeins áður en hún er skorin í bita. Berið hana fram með vanillurjómakremi. Kakan er líka mjög góð daginn eftir að hún er bökuð.

 

Vanillukrem:

Þeytið saman eggjarauðum, sykri og vanillu þar til blandan er mjög létt, ljós og loftmikil.

Þeytið rjóma. Gott er að hafa hann frekar léttþeyttan.

Blandið eggjablöndunni saman við rjómann og berið fram með volgri eplakökunni. Vanillukremið geymist vel fram á næsta dag.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal