- +

Bláberjasúkkulaðikaka með rjómaostamarmara

Hráefni:
200 g smjör
200 g súkkulaði
3 stk egg
½ tsk vanilludropar
2 dl flórsykur
5 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1 dl möndlur, fínt malaðar eða möndlumjöl
3 dl bláber (3-4 dl)

Rjómaostakrem
4 dl rjómaostur
4 msk flórsykur
1 stk eggjarauða

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið saman smjör og súkkulaði. Kælið aðeins. Hrærið saman egg, vanilludropa og sykur þar til létt og ljóst. Bætið við hveiti og lyftidufti. Malið möndlur í mél í matvinnsluvél. Hrærið möndlumjölið saman við deigið. Hellið bráðnu súkkulaðinu út í deigið í mjórri bunu og hrærið. Setjið loks helminginn af berjunum varlega saman við og blandið vel en rólega með sleif svo berin springi ekki of mikið.

Hrærið saman allt hráefnið í rjómaostakremið þar til létt og kekkjalaust.

Klæðið 20-22 cm form með bökunarpappír. Hellið deiginu í. Hellið rjómaostakreminu í mjórri bunu hring eftir hring yfir deigið í forminu. Notið gaffal til að hræra kremið örlítið saman við deigið, gerið hringhreyfingar með gafflinum ofan í deigið svo úr verði marmaramunstur.

Sáldrið afganginum af berjunum yfir að lokum og stingið kökunni í ofn. Bakið í 40-50 mínútur eða þar til efsta lag kökunnar er orðið stinnt þegar ýtt er á það. Alls ekki baka kökuna mikið, það er miklu betra að hún sé pínu blaut í miðjunni. Berið hana fram ylvolga og þá með rjóma eða ís.

 

 

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir