- +

Bláberjakaka með sítrónurjómaostakremi

Innihald:
375 g hveiti
2 tsk lyftiduft
¼ tsk matarsódi
¾ tsk salt
400 g sykur
230 g smjör, við stofuhita
1 msk sítrónubörkur
4 stk egg
2 tsk sítrónudropar
½ tsk vanilludropar
100 g sýrður rjómi, 10%
2 msk sítrónusafi
250 g bláber, fersk eða frosin

Sítrónurjómaostakrem:
170 g smjör, við stofuhita
340 g rjómaostur
1 tsk vanilludropar
¼ tsk sítrónudropar
500 g flórsykur

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 180 gráðu hita og smyrjið tvö hringlaga, meðalstór (ca 23-24 cm) bökunarform að innan. Setjið einnig smjörpappír í botninn á þeim og smyrjið ofan á pappírinn. Ef þið viljið hafa kökuna hærri þá setjið þið deigið í 3 minni form.

2. Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál, hrærið og setjið til hliðar.

3. Þeytið saman smjör, sykur og sítrónubörk þar til blandan verður ljós og létt.

4. Blandið mjólk, sýrðum rjóma og sítrónusafa saman í skál og hrærið saman. Látið blönduna standa svo hún þykkni í rúmar 2 mínútur.

5. Bætið eggjum saman við sykurblönduna, einu og einu í senn og hrærið vel á milli. Gott er að skafa hliðarnar á skálinni af og til og hræra svo vel.

6. Setjið sítrónu – og vanilludropa saman við og hrærið.

7. Setjið bláberin í skál og setjið rúmlega 3 msk af hveitiblöndunni yfir bláberin og hrærið, þannig festast þau ekki saman og klessast. Ef þið notið frosin ber verða þau að vera tekin beint úr frystinum áður en þau fara í kökuna svo þau klessist ekki öll.

8. Blandið hveitiblöndunni saman við deigið ásamt mjólkurblöndunni smá og smá í einu og hrærið. Passið ykkur að hræra aðeins til að blanda öllu léttilega saman svo kakan verði ekki seig.

9. Bætið bláberjunum saman við deigið og hrærið varlega með sleif.

10. Hellið deiginu í kökuformin og bakið í 25-30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

Leyfið botnunum að standa og kælast í formunum í dágóðan tíma og látið þá svo kólna alveg áður en kremið er sett á.

 

Sítrónurjómaostakrem, aðferð:

1. Hrærið smjörið þar til það er orðið ljóst og létt, blandið rjómaostinum saman við og hrærið þar til blandan verður slétt og fín.

2. Setjið flórsykurinn saman við smátt og smátt í einu og hrærið vel á milli.

3. Setjið vanillu- og sítrónudropana saman við og hrærið.

4. Ef ykkur finnst kremið of þunnt er gott að setja það inn í ísskáp í smá stund til að leyfa því að þykkna, einnig er hægt að bæta við smá flórsykri. Þetta er ágætt magn af kremi svo það er hægt að smyrja vel af því á kökuna en ekki nauðsynlegt að nota það allt ef þið viljið það ekki.

5. Skreytið með sítrónusneiðum og ferskum bláberjum.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir