Elmo

Innihald
200 g púðursykur
200 g sykur
4 stk egg
320 g hveiti
2 msk kakó
4 tsk lyftiduft
2 dl súrmjólk
120 g smjör brætt

Smjörkrem
250 g smjör við stofuhita
1 pk flórsykur (500 g)
4 tsk vanilludropar (eða það bragð sem þú vilt)
2 msk mjólk (2-4 msk)

Kaka aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°c og smyrjið tvö hringlaga eldföst mót að innan ca 22. cm. að stærð. Ef þið viljið hafa kökuna hærri þá noti þið aðeins minni bökunarform.
 2. Hrærið sykurinn og eggin vel saman þangað til blandan verður orðin ljós og létt.
 3. Blandið öllum þurrefnunum saman í skál og hrærið vel saman
 4. Bætið þurrefnunum saman við blönduna ásamt mjólkinni og brædda smjörinu smá og smá í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman eða í rúmar 2 mín.
 5. Skiptið deiginu á milli formanna og bakið í ca. 20-25 mín. eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kælið kökurnar alveg. Það er mjög mikilvægt að kökurnar séu vel kaldar þegar kremið er sett á þær svo það haldist vel og bráðni ekki á kökunum.                              

Matarlitir: Hvítur og svartur, mikilvægt er að nota gel matarlit í kremið.

Skraut: Tvær Oreo kexkökur og appelsínugul tyggjókúla.

Sprautustútur: Stór gras sprautustútur.

 1. Hrærið smjörið í hrærivélinni þangað til það er orðið mjúkt og létt.

 2. Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli.

 3. Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef ykkur finnst kremið of þykkt bætið þið við mjólk og ef ykkur finnst það of þunnt bætið þið við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnum við við alla smjörkekkina og kremið verður með fallega áferð. Því lengur sem þið hrærið því betra verður kremið.

 4. Blandið saman við kremið rauðum matarlit, til þess að fá fallegan rauðan þarf svolítið mikið af matarlit. Hrærið kremið vel saman við matarlitinn því það dökknar aðeins með tímanum. Litið svo restina af kreminu  með svörtum matarlit til þess að gera augun og munninn á Elmo.

 

Aðferð:

 1. Fyrsta myndin hér að ofan sýnir þann matarlit sem ég notaði fyrir kökuna ásamt stóra gras sprautustútnum sem notaður er til þess að gera Elmo loðinn og fínann.

 2. Það fer rúmlega tvöföld uppskrift af smjörkremi á kökuna. Leggið botnana á diskinn þannig að botninn standi upp, þannig fáum við kökuna til þess að vera fallega í laginu og efsta lagið verður slétt sem gerir kökuna svo fína. Setjið smjörkrem á milli botnanna og setjið svo þunnt lag af kremi yfir kökuna alla, það er gert til þess að festa hana saman og er kallað “crumb coat”. Best er svo að setja kökuna inn í ísskáp í rúmar 30 mín. 


 1. Setjið sprautustútinn í sprautupoka og setjið kremið í hann. Það er mjög mikilvægt að fylla pokann aðeins 1/3 af kremi því kremið er svo fljótt að verða lint og bráðna af hitanum í höndunum okkar, því er betra að setja minna í einu og oftar.

 2. Á sprautustútnum eru nokkur göt sem auðvelt er að sprauta  kreminu út úr. Til þess að fá hann sem loðnastan þarf að setja sprautustútinn alveg upp að kökunni og sprauta kreminu út, sleppa svo og kippa stútnum snöggt frá, þannig myndast langar ræmur sem gera hann svo flottan.

 3. Takið tvær Oreo kexkökur og skreið í tvennt, passið að kremið haldist heilt á öðrum helmingnum á kökunni. Leggið kexið ofan á kökuna sem augu. Setjið tyggjókúlu sem nef. Litið restina af kreminu svart og gerið augasteina og munn. Það er einnig hægt að nota brún m&m sem augasteina og lakkrísreimar fyrir munn á Elmo.

 4. Kælið kökuna þar til kremið hefur náð að storkna örlítið.

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir