- +

Tættur grísabógur - pulled pork

Kryddlögur:
1½ dl púðursykur
1 msk kakó
1 tsk rauðar piparflögur
1 tsk kanill
1 tsk reykt paprika
1½ tsk salt
1 tsk sinnepsduft
1½ dl tómatsósa
4 msk ólífuolía

Grísabógur:
2 kg grísabógur, rúmlega 2 kg
1 stk gulrót, skorin í bita
2 stk laukar, skornir í báta
6 stk hvítlauksrif, óafhýdd
5 dl eplasíder
2½ dl vatn

Lítil hamborgarabrauð (32 stk.)
2 dl vatn
2 dl mjólk
3 tsk þurrger
sykur á hnífsoddi
2 tsk salt
120 g smjör, við stofuhita og skorið í litla bita
10 dl hveiti eða eins og þurfa þykir
1 stk egg, pískað og til penslunar
sesamfræ eftir smekk

Vínberjahrásalat:
2 msk eplasíderedik
1 msk Dijonsinnep
1 msk sykur
2 msk ólífuolía
1½ dl sýrður rjómi 18%
sjávarsalt og svartur pipar
1 stk lítill grænn kálhaus eða 1/2 stór, skorinn í þunna strimla
8 stk vorlaukar, saxaðir
5 dl græn vínber, söxuð
2 handfylli ferskur kóríander, saxaður

Aðferð:

Tættur grísabógur, aðferð:

1. Stillið ofninn á 150°.

2. Hrærið saman fyrstu níu hráefnunum sem eiga að fara  í kryddlöginn. Makið honum síðan yfir allt kjötið. Leggið grísabóginn í ofnskúffu eða í pott með loki, sem má fara í ofn. Raðið gulrótarbitum, laukbátum og hvítlauk meðfram. Hellið eplasíder og vatni í ofnskúffuna. Setjið í ofninn og eldið í 2 tíma. Hyljið þá með álpappír eða setjið lok á og eldið áfram í 2 ½ tíma.

3. Takið kjötið út úr ofninum og leyfið því að standa í 20 mínútur. Fleygið grænmetinu. Hrærið upp í soðinu. Tætið kjötið niður með tveimur göfflum og setjið í soðið. Berið fram með hamborgarabrauðum, litlum eða stórum, eða tortillakökum og hrásalati.

 

Lítil hamborgarabrauð, aðferð:

1. Leysið gerið upp í ylvolgri mjólk og vatni. Hrærið og setjið smá sykur og salt saman við.

2. Setjið hveiti út í smátt og smátt, hnoðið og bætið smjörinu saman við. Hnoðið og bætið hveiti við eins og þurfa þykir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 30 mínútur.

3. Skiptið deiginu niður í 36 bita og mótið kúlu úr hverjum bita. Raðið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Látið hefast í 30 mínútur.

4. Stillið ofninn á 180°.

5. Penslið með eggi og sáldrið sesamfræjum yfir. Bakið í u.þ.b. 10 mínútur.

 

Vínberjahrásalat, aðferð:

1. Pískið fyrstu þrjú hráefnin saman. Bætið olíunni saman við smátt og smátt á meðan hrært er. Bætið sýrðum rjóma út í. Hrærið og smakkið til með salti og pipar.

2. Setjið hin hráefnin saman við og hrærið varlega saman.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir