- +

Pítur fylltar með grilluðu lambakjöti og ýmsu góðgæti

Kjöt:
500 g lambainnanlæri eða lambafile án fitu
rifinn börkur af einni sítrónu
1 tsk þurrkaðar rauðar chiliflögur
2 msk ferskt oreganó, fínsaxað
1 msk sjávarsalt
1 msk ólífuolía

Pítubrauð:
3½ dl ilvolgt vatn
2 tsk þurrger
1½ tsk sjávarsalt
3 msk hveitiklíð
hveiti eins og þurfa þykir

Rjómaostasósa með ferskum kryddjurtum:
125 g hreinn rjómaostur
6 msk grísk jógúrt
safi úr 1/4 sítrónu og e.t.v. meira
½ tsk rifinn sítrónubörkur
1 msk ítölsk steinselja, fínsöxuð
2 msk graslaukur, fínsaxaður
1 stk. smátt hvítlauksrif, marið
sjávarsalt og svartur pipar

Ólífumauk:
1 dl rúmlega af góðum grænum ólífum, skolaðar og gróft saxaðar
2 msk kapers, skolað og gróft saxað
2 dl ítölsk steinselja, söxuð
2 msk fersk mynta
3 msk ólífuolía

Fylling:
ferskt salat, magn eftir smekk
4 msk ristaðar furuhnetur
100 g fetakubbur, mulinn

Aðferð:

Byrjið á að útbúa pítubrauðin því þau taka dálítinn tíma, ekki sjálf vinnan við þau heldur hefunartíminn. Ef tíminn er af skornum skammti er vel hægt að kaupa tilbúnar pítur úti í búð og réttinn má líka bera fram án pítubrauðanna og er þá kominn fínasti LKL réttur. Leysið gerið upp í vatninu og setjið síðan saltið og hveitiklíðið út í. Bætið hveitinu saman við smátt og smátt. Hrærið í á milli þangað til þið eruð komin með mjúkt og meðfærilegt deig. Hnoðið niður og látið deigið hefast í 30 mínútur. Síðan er deigið hnoðað á nýjan leik í stutta stund og því skipt niður í 14 bita. Mótið kúlur úr hverjum bita og fletjið út í hring sem er u.þ.b. 15 cm í þvermál og leggið þá á tvær ofnplötur klæddum bökunarpappír. Aftur tekur við hefun og nú í 45 mínútur. Að hefun lokinni eru pítubrauðin bökuð við 250°C í 5 mínútur.

Þá er hægt að snúa sér að kjötinu. Byrjið á að setja rifinn börk af einni sítrónu á disk ásamt rauðum piparflögum, salti og óreganó. Síðan er kjötið sett á diskinn og 1 msk af ólífuolíu hellt yfir það. Veltið kjötinu upp úr kryddblöndunni og þrýstið henni á. Látið kjötið svo bíða meðan þið útbúið rjómaostasósuna en það tekur ekki langan tíma.

Hrærið saman rjómaost og grísku jógúrtinni. Bætið sítrónusafa saman við, söxuðu kryddjurtunum og hvítlauknum. Smakkið til með sítrónuberki, salti og pipar. Næst er ólífumaukið útbúið, en það er einfalt og tekur örskamma stund. Hrærið saman ólífur, kapers og kryddjurtir og hrærið saman með ólífuolíunni. Þá er allt tilbúið fyrir grillið.

Kjötið er sett á heitt grill svo það snarkar í og grilltíminn ræðst af smekk hvers og eins. Það mætti líka steikja innanlærisvöðva á pönnu og setja síðan í ofn í 15-20 mínútur við 150°C. Þegar kjötið er tilbúið er það látið hvíla í 5 mínútur í álpappír áður en það er skorið, næfurþunnt.

Þá er bara samsetningin eftir. Raðið eftirtöldu á fat, hverju ofan á annað. Byrjið á salatinu og kjötinu ofan á það. Síðan ólífumaukinu og þá muldum fetaosti. Furuhneturnar eru settar þar ofan á og loks er smá sítrónubörkur raspaður yfir. Hver og einn fyllir svo sína pítu með ljúffengri fyllingu og bragðgóðri sósu.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir